Trékubbahestur

Skúlptúr unninn út frá málverki. Hestur í Þingvallamynd Þórarins B búinn til úr trékubbum í anda Aðalheiðar Eysteinsdóttur.

Markmið

Að nemendur kynnist verki úr íslenskri listasögu og byggi eigið verk á því. Að nemendur spegli sig í myndheimi og aðferðum ákveðins listamanns. Að búa til þrívítt verk út frá tvívíðri mynd. Að þroska þrívíða hugsun. Að nemendur takist á við ákveðið verkefni og finni eigin lausnir.

LÝSING

Hópurinn fór á sýninguna Þúsund ár í Þjóðmenningarhúsinu og skoðaði mynd Þórarins B Þorlákssonar, Nótt á Þingvöllum.

Við skoðuðum myndina vel með því að teikna hana og horfðum sérstaklega á hestinn sem stendur í forgrunni myndarinnar, og veltum fyrir okkur hvar Þórarinn hefði staðið þegar hann málaði myndina.  Við komumst að því að sennilega hafði hann staðið hægra megin við hestinn í dágóðri fjarlægð, til að styggja hann ekki, þar sem hesturinn stendur rólegur og virðist hafa horft á listamanninn mála myndina.

Í byrjun næsta tíma skoðuðum við listaverk eftir Aðalheiði Eysteinsdóttur sem gerir skúlptúra;  kindur, ísbirni, kisur, krumma og alls konar fólk úr trékubbum.  Í anda hennar bjuggum við til okkar eigin hest.  Við þurftum að velta fyrir okkur áður en við byrjuðum hvernig best væri að byggja hest sem er ekki eins og bein lína.

Við skoðuðum vel alls konar trékubba, stóra og litla, þunna og þykka.  Síðan byrjuðum við að raða þeim saman og finna út hvernig best væri að byrja byggja upp búk hestsins.  Okkur fannst best að láta plötu fyrir miðju og byrja þannig að þykkja búk hans og finna snúninginn á hálsinum hans.  Hægt og rólega og með mikilli þolinmæði og vandvirkni komum við fótum undir hestum og fundum út að hesturinn er með stóra vöðva.  Okkur fannst svolítið flókið að sjá fyrir okkur snúninginn á hálsi hestsins þar sem hann horfir út úr flatri myndinni, en öll fundum við okkar eigin leiðir með mikilli þolinmæði að lokum.

Efni og áhöld

pappír, teikniáhöld, trékubbar, trélím, málningarteip, mynd af málverki