Hreyfimyndir: Skalað niður

Hreyfimyndir unnar með mismunandi efnivið í smáum skala: pappír, eldspýtur, leir, sand, perlur og tölur, laufblöð, kubba og liti.

Markmið

Að nemendur læri að vinna sína eigin hreyfimynd í litlum skala, frá hugmynd að fullunninni mynd með hljóði. Að nemendur læri að vinna hreyfimyndir með fjölbreyttum efniviði, átti sig á ólíkum möguleikum efniviðarins og það hvernig staðsetning myndvélar og hreyfing getur haft áhrif á útkomuna. Að nemendur sjái hvernig blanda má ólíkri tækni og efnivið saman til þess að koma eigin hugmyndum fram í hreyfimynd.

LÝSING

Hér vinnum við með mismunandi efnivið í smáum skala: pappír, eldspýtur, leir, sand, perlur og tölur, laufblöð, kubba og liti. Við byrjum á því að vinna með einfaldan efnivið og einfalda sögu og flækjum ferlið þegar líður á. Unnið verður ýmist með eigin hugmyndaflug og svo út frá verkum eða sögum annarra listamanna.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir öllu ferlinu sem liggur að baki: allt frá hugmynd að tilbúinni bíómynd með hljóði. Við horfum á myndir eftir aðra og komum okkar eigin hugmyndum niður blað í svokallað „storyboard“. Svo er að velja sér efnivið, kannski þarf að teikna, klippa, saga, finna eða byggja leikmynd en oft fer mestur tíminn í þessu ferli í að skapa heiminn og karakterana sem tilheyra þeim heimi. Þá er það upptökuferlið, svo klipping og hljóðsetning.

Hægt er að vinna ýmist þannig að myndavélin sé staðsett fyrir ofan myndflötinn á þrífæti eða horfi framan á myndflötinn. Þannig er hægt að fara úr flötum tvívíðum fleti yfir í meiri dýpt í þrívídd þegar horft er framan á. Það er líka mikils virði að æfa sig í að fara á milli ramma og hreyfa myndavélina með því að færa sig nær eða fjær myndefninu. Þetta skoðum við allt í myndum eftir aðra listamenn.

1. Form og litir

Í fyrsta verkefninu vinnum við með litaðar pappírsarkir sem við klippum í ýmis form og röðum saman í einfalda og jafnvel nokkuð abstrakt hreyfingu. Við skoðum litahringinn og formfræði. Þetta getur verið sniðug leið til þess að kynna þessi fræði fyrir yngri stigum. Útkoman getur orðið ótrúlega falleg og það er sérstaklega spennandi að vinna með hljóðeffekta og setja saman við hreyfinguna. Þessi aðferð hentar yngri stigum sérstaklega vel og hentar almennt vel sem fyrsta skrefið í hreyfimyndagerð. Við skoðum bæði myndir eftir listamenn sem unnu með abstrakt liti og form og stuttar myndir skapaðar fyrir börn af Sesame Street. Og allt þar á milli. Hér er líka hægt að notast við úrklippur úr blöðum. Myndavélin er staðsett fyrir ofan blaðið í föstum ramma.

Innblástur

Nemendur MÍR

Sesame Street

Norman McLaren

Oskar Fischinger

Ingibjörg Birgis

 

2. Fundið efni

Hér vinnum við með ýmislegt fundið efni, hluti sem finnast á heimilum fólks, í skólastofunni eða úti í náttúrunni: sælgæti, eldspýtur, tölur, kubba, lauf og greinar, sand, skeljar, klaka eða hvað sem er. Eftir að efniviðurinn hefur verið valinn þarf að huga að sögunni. Er efnið að leika sig sjálft eða verða laufblöð að bátum og eldspýtur að litlum karakterum? Hvaða heim erum við að vinna með og tilheyrir hann raunveruleikanum eða fantasíu? Einnig er hægt að leika sér með að láta hluti vaxa og fylla þannig upp í myndaramma sem byrjar tómur. Við skoðum ólíkar aðferðir ólíkra listamanna og notum sömu upptökutækni og í fyrsta verkefninu.

Innblástur

Nemendur MÍR

Jan Svankmajer steinar

Sesame Street skeljar

PES rakettur

 

3. Leir

Í þessu verkefni er unnið með sögur eða minni sem við þekkjum. Við veljum eitt atriði úr þeirri sögu og endurgerum í leir. Hér getur farið mikill í að leira, þ.e. búa til karaktera og leikmynd en að sama skapi fer oft mikill tími í upptökur þar sem hreyfingarnar geta verið mun fínlegri en í fyrri aðferðum. Þessi aðferð eins og hinar hentar öllum aldursstigum grunnskóla þar sem auðvelt er að flækja og bæta við bæði sögu, leikmynd og karaktera á eldri stigum. Hér er líka spennandi að vinna með fleiri ramma og flóknari hreyfingu á myndavélinni sem nú er staðsett þannig að hún tekur lárétt framan á.

Innblástur

Nemendur MÍR 

Wallace and Gromit 

Jan Svankmajer

 

4. Leikmynd

Í þessu verkefni er höfuðárherslan lögð á leikmyndina eða umgjörðina. Efniviðurinn er frjáls en við staðsetjum myndavélina þannig að hún horfir beint á rammann lárétt. Hér leikum við okkur með dýpt rammans og lýsingu. Við vinnu með verk eftir aðra listamenn: ljósmynd, málverk, teikningar eða hvaða miðil sem er og endurgerum það verk. Fyrirmyndin getur ráðið efniviðnum en líka hæfileikar nemendanna, þarna er spennandi að vinna með teikningu og málun, úrklippur úr blöðum, fundið efni, leir eða blöndu af þessu öllu. Allir byggja sína eigin leikmynd í kassa og vinna með leikmyndina eins og leiksvið. Eins leggjum við áherslu á myndavélahreyfinguna, förum inn og út og búum til hreyfingu með myndavélinni.

Innblástur

Nemendur MÍR (1)

Nemendur MÍR (2)

Nemendur MÍR (3)

Nemendur MÍR (4)

 

Efni og áhöld

vefmyndavél, tölva, hreyfimyndaforrit, klippiforrit, fundið efni, sælgæti, eldspýtur, tölur, kubbar, lauf, sandur, skeljar, klaki, litaður pappír, pappakassar, mótunarleir

Til útprentunar

Leiðbeiningar