Vatnsturn

Markmið

Að auka meðvitund nemenda um byggingar í umhverfi sínu og formskynjun. Að þjálfa lausnaleit og verkvit.

LÝSING

Við byrjuðum á því að spá í allskonar hús, leikum þau sem eru há og mjó og teygja sig upp. Hvað eru þau aftur kölluð? Og svo önnur sem liggja og kúra niður á jörðinni og teygja úr sér eins og ormar. En hvernig eru húsin okkar? Allir lýsa sínu húsi, hvernig það er í laginu, á litinn, eru margir gluggar, hæðir eða alveg flatt þak?

Verkefni dagsins er að byggja turn, hefur einhver séð turn? Köllum eftir nokkrum dæmum úr umhverfinu eða huganum. Nú velja allir 5 kubba sem geta teygt sig hátt, hátt upp í loftið. Komum saman í hring og æfum okkur í að raða kubbunum saman. Sá sterkasti verður að vera neðst svo hann geti haldið öllum hinum uppi. Margir möguleikar eru kannaðir áður en kubbarnir eru límdir saman á litla plötu.

En hvernig er svo hægt að komast upp og niður turninn? Hugmyndir skjóta upp kollinum, kennarinn réttir fram glæran slöngubút. Hvað gæti þetta verið?  Það er blásið, hlustað og kíkt í gegn, formað og snúið uppá. Að lokum fær slangan hlutverk rennibrautar og teygjur nýtast við að tylla henni í kringum turninn. Þetta er farið að minna einhvern á vatnsrennibraut en hvað vantar okkur þá? Það finnast afskornir kókflöskubotnar, fagurlega formaðir, hvað getum við gert við þetta?  Nú er þeim tyllt á plötuna undir slönguendann með límbyssu. Það væri gaman að ferðast eftir rennibrautinni, pínulitlar plastkúlur finnast í fjársjóðskistunni og leikurinn hefst.

Það er ekkert vatn í litlu lauginni!!! Nú er vatn sett í allar laugar en spurningin er hvernig getum við látið það renna niður brautina okkar? Þá koma dropateljararnir í góðar þarfir. En hvernig kemst maður inn í turninn og eru kannski gluggar á honum? Teiknum glugga og hurðir á turninn og fáum vaxliti sem elska vatn til að gefa turninum litatóna. Litirnir stinga sér ofan í litlu laugina áður en þeir strjúka turninn og gefa vatninu óvæntan litatón.