Hvalir og köngulær

Líkön af byggingum sem ýmist eru mótuð úr jarðleir eða byggð upp með þvi að líma saman tágar og trépinnar. Áður er búið að ræða tvær grundvallargerðir bygginga og skoða myndir; annars vegar þungar og massífar byggingar og hins vegar grindarbyggingar sem eru léttar og leikandi. Þessum tveimur byggingargerðum má líkja við hvali og köngulær.

Markmið

Að nemandi þekki ólíkar byggingargerðir húsa (massa og grind) – Að nemandi þjálfist í mótun – Að nemandi geri sér grein fyrir mikilvægi burðarvirkis bygginga – Að nemandi finni eigin lausnir á gefnu verkefni

LÝSING

Hvalir og köngulær, hvernig tengist þetta tvennt?  Og hvernig tengist þetta byggingum?  Kennari talar um tvær grundvallargerðir bygginga;  annars vegar þungar og massífar byggingar sem líkja má við hvali og hins vegar grindarbyggingar sem eru léttar og leikandi og líkja má við köngulær.  Skoðaðar eru myndir af ólíkum byggingum og nemendur beðnir að flokka þær sem hvali eða köngulær.  Þeir eru líka beðnir um að nefna byggingar sem þeir þekkja og falla í annan hvorn flokkinn.  En er hægt að flokka allar byggingar sem hvali og köngulær?  Nei, við komumst að þeirri niðurstöðu að margar byggingar eru sambland af hvoru tveggja, en oft er annað meira ráðandi en hitt.

Líkön af þungum byggingum og léttum, - hvölum og köngulóm

Verkefnið hér er að gera líkan að byggingu.  Nemendum er skipt í þrjá hópa.  Einn hópurinn gerir þungar, massífar byggingar (hvali), annar hópurinn léttar grindabyggingar (köngulær) og sá þriðji gerir byggingar sem sameina þetta tvennt.  Efnið sem þeir fá til bygginganna fer eftir byggingagerðinni.  Efnið í þungu, massífu byggingarnar er leir, í grindarbyggingarnar eru notaðar tágar og grillpinnar og þriðji hópurinn fær hvoru tveggja.  Nemendur eru beðnir um að velta fyrir sér eiginleikum efnisins og byggingaraðferðarinnar en um leið að láta efnið leiða sig áfram. 

Gott er að staldra við á miðri leið og gefa sér tíma til að skoða og ræða byggingarnar.  Nemendur sýna og útskýra byggingar sínar fyrir hópnum og kennari hjálpar til með opnum spurningum og læðir inn viðeigandi hugtökum.  Hann spyr líka hvernig nemandi ætlar að halda áfram og kallar eftir hugmyndum hópsins um möguleika í því sambandi.

Efni og áhöld

leir, leiráhöld, tréplötur, tágar, grillpinnar, límbyssur, klippur