Bland í poka

Óvenjulegt bland í poka þar sem jógúrt-lík gifsblanda breytist í harðan skúlptúr.

Markmið

Að nemendur kynnist töfrum gifssteypu. Að þjálfa þrívíða skynjun nemenda.

LÝSING

Við byrjuðum á að skoða marglitaðan silkipappír.  Hann var léttur sem fjöður þegar við létum hann falla til jarðar.  Með lófunum prófuðum við að gera litlar og stórar kúlur úr silkipappírnum og við tókum eftir að silkipappírinn varð þyngri við þessa aðgerð.  Kúlurnar féllu hraðar til jarðar en áður.  Við fengum okkur lítinn plastpoka til að láta kúlurnar ofaní.  Þetta fannst okkur spennandi.  Sumir gerðu margar kúlur í mörgum litum ámeðan aðrir notuðu einn lit.

Næst var að skoða efni sem kallað er gifs, duft sem er svolítið eins og hveiti.  Einhver þekkti efnið, út af frænku sem hafði fótbrotnað.  Við blönduðum gifsi útí vatn þangað til myndaðist lítil gifseyja í miðju vatninu, en þá var kominn tími til að hræra með sleif þangað til vökvinn var orðin eins og jógúrt.  Við heltum kaldri gifsblöndunni ofaní pokana okkar og hengdum þá upp með klemmu á snúru og fylgdumst með ferlinu sem fór í gang.  Frá köldu gifsi yfir í heitt og aftur kalt, og þá var gifsið orðið hart viðkomu og við gátum rólega tekið verkið, sem hafði myndast í pokunum, úr plastpokunum.

Efni og áhöld

silkipappír, plastpokar, gifs, plastfata, vatn, sleif, klemmur, snúra