Bók sem verður lampi

Skissubók / dagbók / verkefnabók sem búin er til með því að brjóta saman stóra pappírsörk. Brotið virkar þannig að bókin getur líka staðið upprétt og ef sett er kertaljós í krukku inn í hana breytist hún í lampa. En þá þarf líka að gera göt í síðurnar til að hleypa ljósinu út.

Markmið

Að skrásetja verkefni og upplifun Töfralampans – Að sjá ólíka og óvænta möguleika í viðfangsefninu

LÝSING

Bókin er gerð úr stórri svartri pappírsörk sem brotin er saman í tvennt, fyrst þversum, opnuð aftur og svo langsum.  Þá eru báðir endar brotnir inn að miðju (að brotinu sem myndaðist þegar örkin var fyrst brotin saman þversum).  Örkin er nú tekin sundur og aftur brotin saman í tvennt þversum.  Nú eru tekin fram skæri og klippt frá brotinu eftir brotlínu inn að miðju.  Það er mjög mikilvægt að klippa frá brotlínunni en ekki þeim enda þar sem brúnir arkarinnar koma saman.

Enn er örkin tekin í sundur og er hún þá mörkuð brotum sem skipta henni í 8 jafna hluta og gat í miðjunni.  Hvernig á nú að koma þessu saman í bók?  Nemendur fá tíma til að glíma við þessa þraut og líkast til finna þeir út úr því.  Ef ekki gefur kennari vísbendingu til að leiða þá áfram.  Galdurin er að taka um brotin sem liggja þversum frá gatinu og lyfta upp.  Þá myndast kross sem hægt er að brjóta saman þannig að úr verður bók.

Þessi bók varð dagbók í Töfralampanum (listbúðum), og skráðu nemendur í hana verkefni og upplifun sína af listbúðunum í lok hvers dags.  Sú skráning var í formi teikningar og texta, allt eftir áhuga hvers og eins.  Þó var lögð meiri áhersla á teikningu.  Í lok vikunnar breyttist bókin svo í lampa!  Það er nefnilega hægt að láta hana standa eins og skúlptúr á borði með því að opna hana og finna aftur krossinn eins og þegar bókin var brotin saman í upphafi.  Gatið sem klippt var þarf að snúa upp.  Nú er hægt að setja krukku með kerti í inn í bókina / lampann. En hvernig eigum við hleypa ljósinu út?  Nemendum er bennt á að þau geta til dæmis klippt út glugga eða stungið út stjörnur úr þeim hliðum sem umlykja kertakrukkuna.

Í þessu verkefni var notuð svört pappírsörk og teiknað á hana með hvítum lit út af samhenginu sem var töfraveröld ljóss og skugga.  Auðvitað er hægt að gera bókina úr annars konar pappír, en hann verður þó að vera nógu þykkur til að standa undir sér.