Eftirmynd – bútamynd

Eftirmynd af málverki sem hópurinn vinnur í samvinnu. Fyrirmyndin er bútuð niður og hver nemandi stækkar einn hluta. Saman mynda hlutarnir stóra eftirmynd af málverkinu.

Markmið

Að nemendur kynnist verki úr íslenskri listasögu og byggi eigið verk á því. Að þjálfa litablöndun og næmi fyrir litum. Að nemendur vinni saman að sameiginlegu takmarki.

LÝSING

Verkefnið er að gera eftirmynd af málverki Þórarins B Þorlákssonar;  Þingvellir, í hóp.  Það er að segja hópurinn sameinast í að gera eina stóra mynd, sem er þó nokkuð stærri en fyrirmyndin.  Eftirprentun af málverkinu er klippt niður í jafna hluta, sem eru jafn margir nemendum.  Hver nemandi fær einn hluta og pappírsörk sem hefur verið sniðin í rétt hlutföll, svo hún endurspegli hlutföll fyrirmyndarinnar.

Hver og einn stækkar upp sinn hluta, í línuteikningu.  Áður en lengra er haldið er hlutunum raðað saman til að ganga úr skugga um að teikning gangi upp sem heild.  Að línur mætist á milli hlutanna. 

Þá vinna nemendur hlutana sína áfram í þurrkrít.  Áhersla er lögð á litablöndun og að fylgja litunum í fyrirmyndinni.  Að lokum er hlutunum raðað saman á vegg í eina stóra mynd.

Þetta er að sjálfsögðu hægt að gera með hvaða fyrirmynd sem er.

Efni og áhöld

mynd af málverki, skæri, pappír, blýantar, þurrkrít