Eggtempera – Þingvallamynd

Málað með aðferðum gömlu meistaranna og búin til eggtempera. Mynd Þórarins B, Þingvellir, skoðuð og litir og form í henni notuð til að búa til nýjar myndir.

Markmið

Að nemendur kynnist verki úr íslenskri listasögu og byggi eigið verk á því. Að nemendur kynnist fornum hefðum málarlistarinnar. Að þroska óhlutbundna hugsun.

LÝSING

Við fórum í Þjóðmenningarhúsið að skoða myndlistarsýningu og sérstaklega var verkið hans Þórarins B Þorlákssonar, Þingvellir, skoðað.  Við skoðuðum litina í málverkinu, það er voða mikið blátt í því en líka grænt og rautt.  Svo er eins og það sé hvorki dagur né nótt.  Við gengum í huganum yfir túnið og fylgdum línunum í myndinni, renndum augunum eftir línum fjallanna og horfðum inn í myndina.

Þegar við komum í skólann skoðuðum við verkið út frá málarahefðinni, litum, línum og formum.  Í tengslum við það skoðuðum við verk Kristínar frá Munkaþverá, Svavars Guðnasonar og Tryggva Ólafssona og ræddum hvað væri form.  Í framhaldi af því skoðuðum við málverkið og fundum form innan þess;  fjallið var eins og eitthvað í laginu;  áin var eins og eitthvað í laginu.  Hvernig eru hlutir í laginu?  Við fundum þessi form í málverkinu, teiknuðum þau á blað ein og sér og klipptum úr þeim skapalón.

Svo lærðum við að búa til okkar eigin málningu, eggtemperu.  Þá eru fundin til ýmis litaduft, en það er líka hægt að nota t.d krydd og ýmislegt.  Auk þess þarf egg og vatn.  Fyrst er matskeið af dufti blandað við matskeið af vatni.  Svo er eitt egg brotið og rauðan skilin frá hvítunni.  Kennarinn gerði þetta en laumaði rauðunni svo í lófann á hverjum og einum.  Svo þurfti að taka himnuna utan af rauðunni, stundum þurfti að sprengja hana með nál.  Ætli sé ungi í rauðunni?

Allir krakkarnir fylgdust spenntir með því að sjá hvort þar væri ungi og hvað ætti þá að gera við ungann?  Það væri þá ungi beint úr málverkinu sem kæmi.  Eggjarauðan var svo látin leka milli fingranna niður í litinn og öllu hrært vandlega saman.  Nú var komin tilbúin málning!

Við grunnuðum striga með bláum lit eins og ríkjandi er í mynd Þórarins.  Svo tókum við skapalónin og notuðum svamp til að lita inn í formin.  Þegar málverkið var þornað festi kennarinn strigana á trélista og svo voru öll verkin sýnd á myndlistarsýningu í Þjóðmenningarhúsinu, sama húsi og málverk Þórarins er í.

Efni og áhöld

litaduft, egg, vatn, skálar, skeiðar, penslar, pappír, blýantar, skæri, strigi, trélistar, heftibyssa, mynd af málverki

Bókalisti