Hreyfimyndir: Remix – Samtíminn

Hreyfimyndir unnar með fundnu myndbandsefni.

Markmið

Að nemendur skilji betur hvernig mynd og texti spila saman, hvernig merking getur verið breytileg eftir ólíkum samsetningum myndar og texta. Að nemendur átti sig betur á áhrifum hljóðs á myndefni og samspili þessara tveggja þátta. Að nemendur læri að hala niður myndböndum og hljóði til að vinna með af netinu, að nemendur æfist í að klippa myndbandsefni og vinna hljóðefni í tölvu.

LÝSING

Þegar unnið er með fundið myndbandsefni getur verið gott að notast við stikkorð, sem hópurinn kemur jafnvel upp með í sameiningu. Stikkorðin geta verið opin og af öllum toga, orð eins og „grænt“, „svalandi“, „flæði“ o.s.frv. Einn kosturinn við að vinna með stikkorð er að þegar það kemur að umræðum  um verkefnin geta nemendur æft sig í að útskýra hver þeirra tenging var við stikkorðið, sem getur verið góð æfing í að útskýra hvað það var sem vakti fyrir þeim þegar þau gerðu verkið, hvaða hugmyndir liggja þar að baki.

Það er áhrifarík leið í listnámi fyrir nemendur á öllum aldri er að notast við skissubók og gott er að hvetja nemendur til að venja sig á að hripa niður hugmyndir á einn stað (þ.e.a.s. í skissubókina sína). Skissubókin er mikilvægt samansafn hugmynda sem gott getur verið að glugga í á mismunandi tímum vinnuferlisins. Kröfur um vinnu í skissubók er hægt að hafa mismundandi eftir aldurshópum. Gott er að gera skissubókina að skemmtilegu verkefni og um að gera að nota hugmyndaflugið, til dæmis getur nemandinn klippt úr myndir úr tímaritum eða prentað út af netinu myndir sem tengjast hugmyndaferlinu. Dæmi um verkefni tengt skissubókum: Dýrabók (í keðjunni Heimur dýranna).

1. Samband mynda og texta  

Gott er ef allir geta setið í hring fyrir þetta verkefni. Dreifið nokkrum gömlum vikublöðum eða tímaritum um hópinn. Sniðug blöð eru til dæmis National Geographic (þar sem þau hafa svo mikið myndefni), gömul Æskublöð eða önnur tímarit. Hver og einn nemandi klippir því næst út annars vegar mynd og hins vegar textabút eða fyrirsögn sem hann velur. Þegar allir hafa fundið sér bæði mynd og texta er gengið á hringinn og hver og einn sýnir hópnum þá samsetningu sem hann eða hún valdi. Hópurinn talar stuttlega saman um samsetninguna, hvaða merkingu fáum við úr þessari samsetningu myndar og texta, hvað getum við lesið út úr þessari samsetningu? Því næst láta allir textabútinn sinn ganga til hægri, þ.e.a.s. rétta þeim sem situr þeim á hægri hönd textann sinn en halda í myndina sína. Aftur er gengið hringinn en nú tölum við um hvað hefur breyst, hvernig er merkingin önnur og hvað segir þetta okkur um áhrif texta á mynd og öfugt?

 

2. Hljóðhönnun 

Nemendur fá allir sama myndskeiðsbútinn og eiga að gera hljóðhönnun við myndina. Í þessu verkefni getur verið sniðugt að nota gömul myndskeið sem eru byggð upp af mjög opnu myndefni, t.d. gamalt fræðsluefni, náttúrulífsmyndir og jafnvel gamlar hljóðlausar myndir. Þá er best að notast við myndir sem eru ekki mjög frægar (td. ekki myndir Charlie Chaplin eða Buster Keaton þar sem nemendur hafa mögulega séð þessar myndir og eru því líklegri til að vera með fyrirfram mótaðar hugmyndir um hvernig hljóð „eigi“ að vera með þessum myndum). Þegar nemendurnir eru allir búnir að gera sína hljóðhönnun horfir bekkurinn svo saman á allar myndirnar og tekur þátt í umræðum. Þetta er góð æfing fyrir nemendur til að sjá hversu mikil áhrif hljóð hefur á myndefni og hvernig sama myndefni með mismunandi hljóðhönnun getur sagt algjörlega ólíka hluti. Hér er líka gott að tala um mismunandi eiginleika hljóðs, hvernig hljóð geta verið róandi eða agressív, ævintýraleg, skapað spennu og svo framvegis.

 

3. Vídjó Collage 

Nemendur hlaða niður 3-7 myndböndum af netinu, og hljóði, og klippa myndböndin saman í nýtt verk. Hér getur verið gott að setja tímamörk, t.d. að lokaútkoman megi í mesta lagi vera 4 mín langt. Eins og venjulega horfir bekkurinn saman á verkin sem hver og einn hefur gert. Skemmtilegar umræður geta skapast um innihald verkanna, og vangaveltur um hvaða áhrif það hefur að taka myndskeið/hljóð úr sínu upprunalega samhengi og setja það í nýtt samhengi. Hér er lykilatriði að nemendur séu virkir í umræðunum og finni að þeir geti verið óhræddir við að koma með sínar túlkanir á myndunum sem þeir og bekkjarfélagar þeirra hafa búið til.
 

4. Exquisite Corpse í myndbandi  

Hver nemandi kemur með eitt myndskeið, 1 mín langt og eitt hljóð sem hann vill nota. Öllum myndskeiðunum og hljóðfælunum er safnað saman á einn stað, hver og einn nemandi fær allan pakkann og klippir hann saman með því að nota öll myndskeiðin og öll hljóðin. Svo horfir bekkurinn saman á öll verkin og ræðir mismunandi útkomur. Spurningar sem velta má upp eru til dæmis hvaða lausnir voru sniðugar og af hverju ákvað hver og einn að setja þetta myndskeið á eftir/undan þessu eða hinu. Einnig getur verið gaman að velta fyrir sér hvað það breytir miklu að setja ákveðið hljóð undir fyrstu senuna í staðinn fyrir síðustu senuna, hvernig uppröðun myndskeiða og hljóðs breytir frásögninni í verkinu o.s.frv.  Allir  nemendur leggja þannig upp með sama efnivið og það er gaman að sjá hvað útkoman getur verið breytileg.

Hér má sjá tónlistarmyndband með hljómsveitinni Bonobo þar sem notast er við fundið efni á skemmtilegan hátt.

 

Dæmi um vefsíður þar sem nálgast má myndefni til að hala niður:

www.archive.org - Samansafn myndefnis sem er fellur ekki undir lög um höfundarrétt og auðvelt er að hlaða niður.

Vefsíða NASA, geimvísindastofnunar Bandaríkjanna. Hér eru myndbönd með ýmsu efni tengdu geimnum, geimferðum og fleiru sem hlaða má niður.

 

Til að hlaða niður af www.youtube.com og www.vimeo.com má notast við síðuna www.keepvid.com. Þá er slóð síðunnar sem myndbandið er á límd inn og ýtt á DOWNLOAD takkann til hægri. Þá birtast nokkrir valmöguleikar þar sem hægt er að velja í hvaða formati maður vill hlaða myndbandinu niður. Yfirleitt er MP4 góður valkostur þar sem það eru ekki mjög stórar skrár.

 

Á síðunni www.freesound.org má hlaða niður ókeypis hljóðeffektum. Notandi þarf að stofna aðgang en það er ókeypis og síðan er auðveld í notkun.

 

Efni og áhöld

tölva, klippiforrit

Innblástur

Leiðbeiningar