Dýrateikning

Rannsókn á dýrum og hvernig umhverfi og veðurfar hefur áhrif á útlit þeirra. Blekteikning og vatnslitamynd af ímynduðu dýri sem nemandi býr til, meðvitaður um hvaða þættir hafa áhrif á útlit dýrsins.

Markmið

Að nemandi geri sér grein fyrir áhrifum umhverfis á útlit og lífshætti dýra, Að nemandi þjálfist í litablöndun, Að nemandi kynnist gömlum teikni- og ritunaraðferðum, Að nemandi læri að takast á við “mistök” og nýta þau á skapandi hátt.

LÝSING

Byrjað er á litablöndun.  Notaðir eru fljótandi vatnslitir eða litað blek.  Nemendur blanda liti saman í glerkrukkum.  Einum lit er blandað í annan með dropateljara.  Gott er að fara með krukkurnar út í glugga og skoða litina í birtunni  þar.  Hvaða áhrif hefur birtan á litina?

Þá er pappírinn tekinn fram.  Hver nemandi fær stóra vatnslitaörk og límir hana á tréspjald.  Það er til þess að halda pappírnum föstum þegar hann blotnar af vatnslitnum.  Pappírinn er nefnilega þeim eiginleikum gæddur að þegar hann blotnar stækkar hann og bólgnar út, og þegar hann þornar dregst hann saman aftur.  Ef hann er ekki límdur niður verður hann allur bylgjóttur þegar hann þornar, en ef hann er límdur fastur niður sléttist úr honum um leið og hann þornar. 

Nemendur lita nú örkina með vatnslitunum sem þeir blönduðu.  Það er gaman að sjá hvernig litirnir blandast saman á pappírnum, þeir renna hver inn í annan og mynda alls kyns form.  Þegar örkin hefur verið fyllt er hún lögð til hliðar og látin þorna.

Nú er farið inn á bókasafn þar sem við fáum fyrirlestur um dýr og einkenni þeirra.  Við skoðum myndir af alls konar dýrum frá ólíkum búsvæðum og ræðum einkenni þeirra.  Af hverju eru ekki sömu dýr í öllum heimsálfum?  Hvernig eru dýrin ólík eftir því hvort þau búa í sjó, í lofti eða á landi?  Hefur veður og birta áhrif á útlit og einkenni dýra?  Af hverju eru tildæmis dýr sem búa á köldum svæðum öll með stutta útlimi og lítil eyru?  Getur það verið af því að ef eyrun væru stór myndu þau einfaldlega frjósa og detta af?  Og hvernig hefur umhverfið áhrif á skynfærin?  Hvaða skynfæri eru mikilvægust hjá dýrum sem búa í myrkri?

Vatnslitamyndirnar eru aftur teknar fram.  Þær eru þurrar og fínar og verða nú bakgrunnur fyrir dýrateikningar.  Teiknað er með svörtu bleki og faðurstaf (það geta verið fuglafjaðrir sem búið er að skera odd á,  bambusstangir eða einfaldlega grillpinnar).  Það getur verið gott að æfa sig aðeins með þessa framandi penna áður en teiknað er á örkina.  Það er allt öðru vísi að teikna með bleki en blýanti.  Hér er til dæmis ekki hægt að stroka út.  En það er líka skemmtilegt.  Línan getur orðið svo fjölbreytt og lifandi.  Stundum er hún sterk og ákveðin, og svo verður hún örmjó og viðkvæm.  Það geta líka komið stórar klessur, en þá er bara að nota ímyndunaraflið.  Kannski er þetta blettur á dýrinu?  Eða auga?

Þegar nemendur eru tilbúnir, teikna þeir uppdiktað dýr.  Gott er að leiða þá áfram með því að spyrja út í hagi og eiginleika dýrsins.  Litaflekkirnir sem mynduðust með vatnslitunum geta líka verið grunnur að formi dýrsins.

Efni og áhöld

fljótandi vatnslitir, litað blek, vatnslitapappír, málningarteip, tréspjald, penslar, teikniblek, fjaðrir, bambus, grillpinnar