Stærðfræðileg munstur

Einfaldar aðferðir í munsturgerð þar sem notaðar eru speglun, hliðrun og snúningur til að mynda reglu og hrynjandi. Munstur Escher notuð sem innblástur og ævintýralegar fígúrur leitaðar uppi í óhlutbundnum formum.

Markmið

Að nemendur kynnist annarri stærðfræði en reikningi – Að nemendur kynnist reglum og hrynjandi í munsturgerð – Að nemendur geri sér grein fyrir áhrifamætti lita

LÝSING

Byrjað er á að tala um munstur.  Hvað er munstur?  Sjáum við einhver munstur í kringum okkur?  Kannski er einhver í munstraðri flík; röndóttri peysu, köflóttum sokkum....   En hvað gerir munstur að munstri?   Hvað þarf til?  Það þarf að vera endurtekning, eitthvað form er endurtekið í sífellu, og það þarf að vera regla.

Kennari kynnir hollenska listamanninn Escher fyrir nemendum.  Hann var mjög flinkur teiknari og mikill meistari í fjarvídd og blekkingu, en líka í munsturgerð, og oft blandaði hann þessu öllu saman. Við skoðum nokkur dæmi um munstur sem hann bjó til og reynum að sjá hver reglan er;  er speglun, eða hliðrun, eða snúningur?  Kannski þetta allt saman? 

Nú búa nemendur til eigið munstur.  Fyrst er að teikna formið.  Nemendur fá pappaspjöld sem eru jöfn á alla kanta.  Til þess að hægt sé að leika sér með formið; spegla, snúa og hliðra, er byrjað á að setja litlar merkingar á sömu stöðum í allar hliðarnar.  Formið sem teiknað er þarf að fara á milli þessara punkta, þá fellur það saman hvernig sem því er snúið.  Formið þarf ekki að vera neitt ákveðið, það er best að hafa það bara alveg óhlutbundið.  Þegar nemendur eru ánægðir með formið sitt er það klipt út og fært yfir á frauðspjald, sem er klippt út eftir forminu.  Frauðformið er límt á trékubb og þá eru kominn stimpill.  Kennari sýnir hvernig best er að nota stimpilinn;  setja litinn á með svampi, passa að ekki sé of mikill litur, og þrykkja svo fast á pappírinn.  Nemendur gera tilraunir með stimpilinn sinn, prófa að gera munstur með því að hliðra, spegla og snúa.  Munstrið verður ólíkt eftir því hvaða aðferð er notuð, og ólík form myndast á milli.  Kannski er hægt að lesa eitthvað í formin?  Finna dýr eða furðuverur með því að bæta einhverju litlu við?

Við ræðum líka um litina og áhrif þeirra hver á annan.  Heita liti, kalda liti og andstæða liti.  Nemendur eru hvattir til að gera tilraunir með að velja saman líka liti annars vegar, og ólíka liti hins vegar, og taka eftir hver áhrifin verða.

Efni og áhöld

pappaspjöld, blýantur, skæri, frauðspjöld, trékubbar, lím, svampar, þrykklitir, þekjulitir, pappír

Innblástur