Drekastólar eða stóladrekar?

Stólahönnun þar sem verkefnið er að umbreyta venjulegum borðstofustólum í ævintýralega drekastóla.

Markmið

Að nemendur kynnist menningararfinum á Þjóðminjasafninu og sjái möguleika á að vinna með hann í samtímanum. Að nemendur kynnist vinnuferli hönnuða frá hugmynd að tilbúnu verki. Að nemendur kynnist hugmyndavinnu.

LÝSING

Verkefnið sem nemendur fengu var að umbreyta venjulegum borðstofustólum í ævintýralega drekastóla.  Verkefnið var margþætt og leiðin löng og á stundum ströng en líka mjög skemmtileg og lærdómsrík.

Við byrjuðum á að heimsækja Þjóðminjasafnið og krakkarnir skoðuðu Grundarstólana og gaumgæfðu í teikningu.  Þau lærðu að skera út í tré og tálguðu drekahausa úr trjágreinum. 

Eftir að hafa hrærst í dularfullum heimi dreka og miðalda stukkum við aftur til nútímans og fórum að velta fyrir okkur hönnun hluta og þá sérstaklega stóla.   Við skoðuðum marga ólíka stóla, gamla og nýja, suma eftir fræga hönnuði og aðra sem ekki eiga sér þekkta höfunda.  Sumir stólanna voru mjög frumlegir en aðrir minna. 

Nú tók hugmyndavinnan við.  Krakkarnir fengu fjölbreyttar æfingar til að koma hugarfluginu af stað.  Til dæmis að tengja saman ákveðin hugtök (stóll og vatn, stóll og loft) gera stóla fyrir kónga og drottningar eða breyta ákveðnum hlutum stólanna:  baki, fótum eða setu.  Þetta leystu þau allt í teikningu, en gerðu líka litla míneatúra af stólum.

Þá var komið að stólunum sjálfum.  Hver og einn fékk einn gamlan borðstofustól.  Stólarnir voru ólíkir í útliti en allir frekar hefðbundnir.  Drekahausarnir voru teknir fram og krakkarnir gerðu tilraunir með að tengja þá stólunum á ólíkan hátt.  Og nú var komið að því að umbreyta stólunum.  Fyrirmælin sem þau fengu voru annars vegar þau að drekahausinn átti að tengjast stólnum og hins vegar að þau áttu að breyta formi stólsins á einhvern hátt.  Um leið var þeim bent á að huga að heildarhugmyndinni.  Stóllinn gat verið einhvers konar umhverfi eða heimkynni fyrir drekann eða jafnvel breyst í drekann sjálfan.

Og útkoman varð níu venjulegir borðstofustólar sem tóku stakkaskiptum og breyttust í drekastóla.  Eða voru það stóladrekar?

Efni og áhöld

pappír, teikniáhöld, hönnunarbækur, einfaldir borðstofustólar úr tré, tré, útskurðarhnífar, naglar, sagir, lím, skrúfur, borvél, mynd af Grundarstólunum, myndir af íslenskum útskurði