Verkefnið var unnið fyrir Eksperimenta!, alþjóðlega myndlistarsýningu fyrir ungt fólk á aldrinum 14-19 ára í Tallin 2009, en það ár var Tallin menningarborg Evrópu og sýningin einn af stærri viðburðum menningarborgarinnar.
Þema sýningarinnar var RÝMI (enska SPACE).
Ákveðið var að “fókusera" á takmörkun rýmis. Hvað skilgreinir eða takmarkar rými? Það er hægt að líta á rými eins og lítinn heim eða litla veröld sem takmarkast af landamærum eða einhverjum mörkum. Rými getur verið áþreifanlegt eða huglægt, persónulegt (prívat) eða sameiginlegt (almennt). Hvað er það sem skilur á milli ólíkra rýma? Og hvað tengir ólík rými saman? Á þessu svæði var valið að sveima; á mærum og tengingum á milli ólíkra rýma - áþreifanlegra, huglægra og í tíma. Ýmis hugtök komu upp í ferlinu sem tengjast rými; perónulegt / almennt / sameiginlegt / einka / kunnuglegt / framandi / skáldað / ævintýralegt / takmarkað / þröngt / vítt / nútíð / þátíð / framtíð / hefðbundið.
Nemendur unnu með sitt persónulegasta rými; herbergið sitt.
Hvaða mynd gefur herbergið þitt af þér? Er hægt að líta á herbergið þitt eins og nokkurs konar sálfsmynd? Herbergið er eins og svið fyrir lífið eða allavega þann hluta þess sem er mest einka, og staðurinn þar sem þig dreymir. Nemendur gerðu líkan af herberginu sínu sem virkaði eins og tómur strigi fyrir það sem á eftir kom. Þeir völdu sér orð eða tilfinningu til að vinna með og umbreyttu herberginu, - gerðu það að einhverju nýju. Orðin/tilfinningarnar sem þau völdu voru mjög ólík. Til dæmis: náttúra, hryllingur, ævintýri, kuldi, bleyta....
Frekari upplýsingar um sýninguna má finna hér: www.eksperimenta.net