Farið er í vettvangsferð í Gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu. Nemendur hafa augun opin fyrir stærðfræðilegum formum í umhverfinu; speglun, samhverfu og brotum (fraktölum). Í náttúrulegum formum eins og gróðri er auðvelt að finna dæmi um þetta; í laufblöðum og blómum má oftar en ekki spegla um miðjuás og tré og runnar eru byggðir upp af brotum.
I. Núningsþrykk
Kennari útskýrir og sýnir hvernig maður gerir núningsþrykk. Lítið blað er lagt yfir flötinn eða hlutinn sem á að taka þrykkið af og þegar litað er yfir með blýanti birtist formið í teikningunni. Það er hægt að gera núningsþrykk af nánast öllu sem er upphleypt, en hér er áherslan á spegluðu formin og brotana. Nemendur fá lítil blöð og blýanta og fara um garðinn og safna formum.
II. Leirþrykk
Í framhaldi af núningsþrykkinu velja nemendur sér einn hlut til að taka leirþrykk af. Það er gert þannig að leir er þrýst niður í botninn á litlu móti (t.d. afskorinni AB-mjólkurfernu) og leitast við að hafa hann sléttan og jafnþykkan. Þá er hlutnum sem á að taka þrykkið (eða mótið) af þrýst ofan í leirinn og hann svo tekinn upp aftur. Hluturinn skilur eftir sig nákvæma eftirmynd í leirnum.
III. Gifsafsteypa
Öllu er nú pakkað saman og haldið aftur af stað upp í skóla. Þegar þangað er komið tökum við leirþrykkin upp og skoðum betur. Hvað er það í rauninni sem við sjáum í leirnum? Er þetta nákvæm eftirmynd hlutarins sem þrykkt var í leirinn? Hún líkist hlutnum mjög mikið, en er samt ekki nákvæmlega eins. Formið í leirnum er eins og hluturinn og leirinn eins og formið sem umlykur hlutinn. Kennari talar um neikvætt og jákvætt rými; negatívu og pósitívu. Pósitívan og jákvæða rýmið er hluturinn og neikvæða rýmið og negatívan er rýmið sem umlykur hlutinn. Og hvernig tengist þetta stærðfræðinni? Jú þetta er eins og plús og mínus!
Leirþrykkið er sem sagt negatívan af hlutnum og þá er að búa til pósitívuna. Hana ætlum við að gera með því að hella gifsi í mótið, ofan á leirinn. Kennari sýnir hvernig gifsið er blandað; fyrst er vatn sett í fötu og gifsinu svo stráð yfir vatnsborðið. Gifsið er látið síga til botns og þetta endurtekið þar til litlar eyjar myndast á yfirborðinu. Þá hrærir kennari í blöndunni með hanskaklæddri hendi þangað til blandan minnir á súrmjólk. Allir eru með grímur fyrir vitunum af því að það er ekki gott að anda gifsduftinu að sér. Nú fá allir gifsblöndu í glas og hella í mótið sitt. Það er gaman að koma við gifsið þegar það tekur að storkna, þá hitnar það! Mótin eru látin standa til næsta dags, en þá eru formin tekin úr mótinu. Pósitíft form úr gifsi og negatíft úr leir. Formunum eru öllum raðað saman á gólfinu þar sem þau mynda nokkurs konar hellulögn.