Gatateikning, fjaðurstafur og pergament

Hér er notuð aðferð miðaldateiknara við að flytja mynd á annan flöt – eða fjölfalda sömu teikninguna. Hér eru líka notuð efni og áhöld miðaldateiknaranna; fjaðurstafur, sortulyngsblek og pergament.

Markmið

Að nemendur kynnist aðferðum og áhöldum miðaladateiknara. Að nemendur kynnist aðferðum við að flytja teikningu á annan flöt.

LÝSING

 

TEIKNAÐ

Þú skalt byrja á að velja þér teikningu eða hluta teikningar til að teikna eftir.  Það getur verið gott að nota hjálpartæki eins og ramma skorinn út úr þykkum pappa til að velja sjónarhorn eða hluta teikningar.  Þegar þú horfir í gegnum rammann er auðveldara að einangra viðfangsefnið.  Þú getur líka þrengt og víkkað sjónarhornið með því að færa ramman nær þér og fjær – eins og þegar súmmað er í myndavél.  Þegar þú teiknar skaltu fylgja fyrirmyndinni eins vel og þú getur.  Teikningin þín á að vera línuteikning eins og fyrirmyndin.

 

GATAÐ

Þegar teikningin er tilbúin leggurðu hana á einangrunarplastplötu og gatar hana.  Það er gert með því að stinga göt með síl eða grófri stoppunál í línurnar í teikningunni.  Nú ertu komin með gataða teikningu sem hægt er að nota eins og götuðu teikningarnar í Íslensku teiknibókinni til að færa teikninguna yfir á annan flöt.

 

TEIKNAÐ MEÐ BLEKI

Nú leggurðu gatateikninguna á pergament eða annan pappír sem lítur út fyrir að vera gamall og stingur með blýanti í gegnum götin.  Það er gott að festa gatateikninguna með límbandi svo hún færist ekki til á meðan hún er færð yfir á pergamentið.  Þegar þú ert búinn að stinga í gegnum öll götin losarðu gatateikninguna af. 

Nú ertu kominn með punktateikningu á pergamentið.  Þá tekurður fram fjaðurstafinn og blekið og dregur á milli punkatanna.

Efni og áhöld

pappír, teikniáhöld, fyrirmynd til að teikna efitr (Íslenska teiknibókin), einangrunarplast, síll eða stoppunál, fjaðurstafur (eða pennastöng og oddur), sortulyngsblek (uppskrift í Íslenskri flóru Ágústar H Bjarnasonar, eða annað blek), pergament (eða pappír sem lítur út fyrir að vera gamall, - til dæmis hægt að mála hvíta örk með kaffi eða tei).

Bókalisti