Hreyfimyndagerð hentar vel sem samvinnuverkefni. Í hópvinnu kvikna margar hugmyndir og það reynir á marga þætti. Það þarf að sitja við tölvuna og taka myndina, ákveða hvaða uppsetning henti aðstæðum, hvaða ljósgjafa eigi að útvega, gera tilraunir og finna út hvernig byrjunin eigi að vera, hvað gerist svo næst, skipuleggja hreyfingar og taka hæfilega margar myndir til að ná góðri framvindu í hreyfimyndina. Að lokum þarf að ákveða hvernig á að ljúka myndinni. Svo þarf að vinna úr myndinni eftirá, klippa til og setja inn hljóð og texta.
Hægt er að nálgast hreyfimyndagerð með ýmsu móti, t.d. að leggja áherslu á handrit og hefðbundna sögugerð, byggja til dæmis á þekktum sögum. Þá er miðillinn, þ.e.a.s. efniviður og aðferðir, eins og kápa fyrir söguna og er sniðinn eftir henni.
Við getum snúið þessu við og látið efniviðinn og aðferðina sem notuð er ráða ferðinni. Framvindan í hreyfimyndinni og „frásögnin“ verður jafnvel til á stund og stað, möguleikar efniviðarins kveikir hugmyndir, tilraunir leiða verkefnið áfram, ferlið sjálft er „sagan“ sem getur verið mjög óhlutbundin og draumkennd. Hljóðmyndin sem lögð er ofan á getur svo ýtt enn frekar undir og haft áhrif á líf og tilfinningu í hverri hreyfingu og lit.
Einn möguleiki er að nota ákveðnar kveikjur og spinna þær áfram út frá möguleikum efniviðarins. Dæmi um það er í verkefninu Töfralampinn sem Myndlistaskólinn í Reykjavík vann með 3. bekkingum í Fella-, Hólabrekku- og Breiðholtsskóla sjá krækju hér.
Möguleikar á uppsetningu:
1. Það er myrkur,við setjum upp ljósgjafa, göngum inn í ljósgeislann og það fellur strax skuggi........ það gæti verið á vegg, jafnvel tvo veggi og eitt horn, eða gólf. Göngum að ljósinu og frá, fram og til baka, fylgjumst með skugganum stækka og minnka og ummyndast, lærum á hann.
Fyrir auga myndavélarinnar er hér allt sýnilegt, hlutirnir sjálfir, líkaminn og skuggavarp þeirra á flöt eða fleti innan einhvers rýmis eða úti.
Sjá sem dæmi Shadowplay, Jaakko Niemala.
2. Ljósið logar áfram, við strengjum upp band milli veggja í rýminu. Hengjum upp tjald sem grípur strax skuggann okkar, hann réttir úr sér, fellur beinn, hinumegin við tjaldið birtast hreinar skuggamyndir fyrir myndavélina. Nýr heimur.
Hér virkar tjaldið eins og skermur sem grípur alla skugga í einn flöt, áfram er unnið með rými hluta og líkama (sjá mynd 6).
3. Smáheimur: Við setjum upp lágan pall fyrir innan tjaldið. Kveikjum á fleiri smáljósum sem standa á gólfinu við pallinn eða á brún hans og beinast að tjaldinu, í ljósgeislana stillum við upp smágerðum hlutum, formum og litum. Skuggarnir margfaldast og stærðarhlutföll breytast eftir því hvort lýst er neðan frá eða að ofan, nálægt eða úr fjarska. Einnig er hægt að setja upp einfaldan skerm á borði í stað tjalds sem er þá mun smærri uppsetning í sniðum (sjá t.d. mynd 4).
Þessum möguleikum er svo hægt að blanda saman og leika sér að í uppsetningum og myndatöku.
Þegar er unnið með ljós og skugga er áhugavert að vinna í nokkrum lögum. Bara við það að lýsa í gegnum litfilmur bætist við nýtt lag. Þegar unnið er með ljósliti gildir önnur litafræði en við erum vön. Þar eru grunnlitirnir rauður grænn og blár sem í réttum hlutföllum mynda hvítt ljós saman sbr. í sjónvarpi og tölvuskjám. Hér er hlekkur á litafræði ljóss.
Til að vinna með breytilegan bakgrunn er gaman að nota myndvarpa sem ljósgjafa og leggja ofan á hann bæði litglærur eða glærur til að teikna á, hluti sem gefa skemmtilega skugga, gagnsæjar skálar eða box til að leika sér að eiginleikum vatns, bleklita og olíu. Þá er líka hægt að draga fram gömlu slides-sýningavélina eða bara skjávarpa og skella upp skemmtilegum bakgrunni með gömlum eða nýjum myndum. Í forgrunni eru þá smáheimar eða aðrir hlutir sem standa inn í ljósgeislunum og mynda skuggaspil.
Hreyfimynd þarf ekki að vera flókin. Að gera hreyfimynd bara með vasaljósum er spennandi og reynir á hugkvæmni og samvinnu þeirra sem taka þátt. Þar er áhugavert að byrja á því að skoða hvernig geislinn af ljósinu fellur á tjaldið, og breytist eftir því hvort ljósið er fært upp að eða frá tjaldinu, hvort því er hallað eða snúið beint að tjaldinu, fyrir nú utan að geislarnir eru svo margbreytilegir eftir gerð ljósanna. Við getum búið til hreyfimynstur ljósanna líkt og um „syncroniced swimmers“ væri að ræða eða sjónræna tóna. Hér reynir á listræna stjórn í hópnum sem skipuleggur og stjórnar tökum og hreyfingum. Þá er líka möguleiki á því að ganga inn í geisla vasaljósana, lýsa upp prófílinn sinn, geifla sig og gapa eða búa til skuggamyndir með höndunum, stundum er gott að vera með höfuðljós og hafa frjálsar hendur. Hljóðvinnsla skiptir miklu máli þegar unnið er með óhlutbundnar myndir og stemmingar í þeim.
Önnur einföld kveikja getur falist í því að frelsa ljósið. Þá er ljósgjafi lokaður inn í stórum pappakassa eða mörgum pappakössum. Í upphafi er svartamyrkur, ekkert ljós. Skref fyrir skref er opnað fyrir ljósið, fyrst með einu og einu gati sem gert er með misbreiðum skrúfjárnum og sílum. Út um götin hendast nú litlir ljósgeislar sem lenda út um allt herbergið og verða eins og stjörnur í himingeimnum. Svo er hægt að grípa til annarra verkfæra, opna stærri göt, sem fjölgar og taka á sig nýjar myndir. Aðal málið er að vara sig á því að taka myndirnar hæfilega þétt svo það verði ekki of stór stökk á milli mynda, of mikil breyting. Þessi kveikja gæti verið hluti af stærra samhengi eða tekið einhverja spennandi stefnu þegar áfram er haldið.
Eitt vinsælt viðfangsefni er að byggja borg úr fundnum hlutum, pappakössum, pappahólkum, fötum (ílátum), litríkum smáhlutum, klæðisbútum og hverju því sem hendi er næst. Til dæmis er hægt að byrja með autt svið, en síðan er byggt upp skref fyrir skref, ljós kvikna og slökkna, mismundi ljósgjafar eru nýttir, lituð ljós og vasaljós, ef til vill er lagt lag yfir með ljósvarpa eða öðrum miðlum. Sjá sem dæmi myndbönd nemenda í listbúðunum Töfralampanum.
Hér hafa örfá dæmi verið nefnd en möguleikarnir eru ótæmandi og hugmyndirnar kvikna um leið og farið er að safna að sér og eiga við efniviðinn. Ljós og skuggi er svo gjöfult viðfangsefni að lítið þarf til kveikja á ímyndunaraflinu og töfra fram áhrifaríka heima og geyma.