Hreyfimynd – litaleikhús

Hreyfimynd unnin í skugga- og litaleikhúsi. Nemendur kynnast því hvernig hreyfimynd verðu til og byggja borg úr pappakössum. Þegar borgin byggist upp verður til önnur borg á bakvið vegna ljósanna sem lýsa upp sviðið. Litað ljós eykur svo enn á töfrana með skuggum í öllum regnbogans litum.

Markmið

Að kynnast töfrum hreyfimyndagerðar (stop motion) – Að kynnast samspili ljóss og skugga – Að vinna í hóp

LÝSING

Hvar eru allir stólarnir og borðin?  Á gólfinu er búið að teikna með límbandi skrýtinn kassa með bleikum punkti í miðjunni.  Við setjumst í kringum þennan punkt og horfum í kringum okkur.  Þarna stendur myndavél á þrífæti, ljóskastarar, fullt af þeim, tölva á borðinu og hrúga af bananakössum á borðum sem raðað er upp við veg, pappahólkar, risa plasttrektir, litrík lök og dúkar, lager af garnkeflum í öllum litum, safn af gömlum hlutum s.s reiðhjólagjörð og fleira.  Þarna er líka kassi með vasaljósum.  Börnin sækja sér hvert sinn kassa og setjast umsvifalaust í hann.  Þeir verða að húsum, skipum, bílum, snjósleðum og mörgu fleiru.

Við ætlum að gera hreyfimynd í dag.  Hvað er nú það....?  Hafið þið tekið myndir?  Í dag ætlum við að taka margar, margar myndir með myndavélinni sem er að horfa á okkur.  Eitt og eitt barn kemur að tölvunni og lærir að smella mynd af hinum.  Þegar allir hafa tekið eina mynd koma börnin að tölvunni og við látum hana líma allar myndirnar saman og sýna okkur.  Svona getum við gert hreyfimynd!

Leiksvæðið okkar í þessu verkefni er innan límbandsins þar sem við sátum í upphafi, myndavélin sér allt fyrir innan það.  Og nú hefst alvöru myndataka.  Í fyrstu koma allir í röð við tölvuna.  Við byrjum á auðu sviði, tökum fyrst mynd af því.  Þegar fyrsta barn hefur smellt mynd, tekur það kassann sinn og stillir honum upp.  Næsta barnið í röðinni smellir mynd af því og svona gengur þetta koll af kolli.  Smám saman raða þau upp sameiginlegri kassabyggð og prjóna við hana alls kyns munum úr dótasafninu.  Þau fara oft tvö og tvö, jafnvel fleiri saman í senn í byggingarstarfið, milli þess sem þau smella myndum af ferlinu. 

Þegar byggðin rís taka þau eftir því að önnur borg myndast á bak við þeirra.  Sterkar skuggamyndir varpast á vegginn vegna ljóskastaranna sem lýsa upp sviðið.  Þegar uppbyggingu er lokið að mestu taka við tilraunir í lýsingu.  Slökkt er á hvítu kösturunum og rautt ljós prufað, svo blátt.  Að lokum er kveikt á öllum litum saman (RGB skalinn).  Á þessu stigi eru aðal töfrarnir fólgnir í því að ganga inn í litabaðið og upplifa sinn eigin skugga með því að ganga nær og fjær veggnum og sjá þá litagaldra sem þar birtast.  Vasaljósin koma við sögu og bregða upp ævintýraljóma á upplifun barnanna og rými sviðsmyndarinnar.

Það er ekki síður gaman að taka allt niður í lokin og það verður hluti af myndinni.  Kastarar fara í gang aftur og skuggaleikurinn heldur áfram allt til enda.  Í ljósahlutanum tekur leikurinn völdin og kennari sér um að ljúka myndatökunni.

Efni og áhöld

tölva, hreyfimyndaforrit, myndavél, þrífótur, ljóskastarar, litafilterar, pappakassar, fundið efni