Riddarinn fellir drekann

Myndasaga gerð eftir einni teikningu úr Íslensku teiknibókinni. Völdum hlutum hennar raðað saman í fleiri en einn ramma svo úr verður frásögn á einni síðu. Frásögnin er bæði teikning og texti (talblöðrur, hugsanablöðrur, skýringar/lýsingar, áhrifsorð).

Markmið

Að nemandi læri að sjá og semja sögu út frá stakri mynd. Að hann læri að skoða fyrirmyndir og teikna þær á þann hátt sem hæfir hans eigin sögu.

LÝSING

Skoðaðu myndina af riddaranum fella drekann sem er hér fyrir ofan. Í teikningunni er margt að sjá, auk riddarans og drekans: prinsessu, hrút, kastala, konung og drottningu, tré, fiskimann, skip og fleira. Ímyndaðu þér sögu sem myndin gæti verið að segja. Reyndu að gera þér í hugarlund hvaða persónur þetta eru og hvað þær eru að hugsa og segja. Veltu fyrir þér því sem gerist á undan og á eftir því sem myndin sýnir okkur. Byrjaðu að sjá fyrir þér söguna þína sem myndasögu á einni síðu, ramma fyrir ramma, teikningar og texta. Rammarnir mega vera misstórir. Notaðu fyrirmyndirnar til hliðsjónar en teiknaðu annars persónurnar frá því sjónarhorni og í þeim stellingum sem hentar þinni sögu. Sama á við um byggingar, skip og annað í myndinni. Þú þarft ekki að teikna allt sem er í myndinni, veldu þá hluta sem höfða til þín. Reyndu samt að hafa riddarann og drekann með.

 

Yfirleitt eru myndirnar í Íslensku teiknibókinni línuteikningar. Þessi er reyndar með örlitlum lit. Þú getur unnið myndasöguna meira ef þig langar. Notaðu blýant eða blek bæði til að gefa til kynna misdökka liti og eins til að sýna skugga. Eða þá að þú getur notað liti.

Stikkorð

Efni og áhöld

Myndin sem sést hér að ofan úr Íslensku teiknibókinni, blað og teikniáhöld.

Bókalisti

Til útprentunar