Við skoðuðum bækur með verkum eftir Dieter Roth og bókverk eftir ýmsa
höfunda aðra. Í litabakka setti ég síðan ljóst og dökkt súkkulaði, súkkulaðisósu, ólívuolíu, bláa berjasaft, rauða berjasultu, sojasósu og trönuberjasaft. Við notuðum súkkulaðibita sem krítar en hitt sem sem málningu sem þau báru á með pensli. Verkefnin voru síðan: sjálfsmynd með spegli, veðrið út um gluggann, hvað verður í matinn í kvöld og frjálst. Sumir áttu erfitt með að standast freistinguna að bíta í súkkulaðið áður en teiknað var en í lok tímans gæddum við okkur á afgangsbitunum.
Við límdum síðan og saumuðum myndirnar saman í bækur. Það var áhugavert að fylgjast með ferlinu við bækurnar því í upphafi tímans var góðgætið spennandi en í lokin voru nokkrir alveg búnir að fá nóg og fannst þetta orðið einum of mikið drullumall.
Því tókum við okkur aðeins hvíld frá þessum bókum og skoðuðum hönnunarbók um töskur og ýmsa fylgihluti. Þau áttu síðan að bæta við bókina handfangi eða snúru þannig að hægt væri að bera hana. Bækurnar þróuðust því í fylgihluti sem tóku mið af lyklakippum, eyrnalokkum, skjalatöskum, bakpokum o.sv.frv án þess þó að vera slík.