Verkefnið byrjaði sem teikniverkfeni. Ég kom með nokkur plastdýr (tígrisdýr, fíla, gíraffa og apa) og stillti upp á borðið fyrir framan krakkana. Þau skoðuðu dýrin vel og gerðu nokkrar teikniæfingar. Þau teiknuðu dýrin blindandi (þ.e. án þess að horfa á blaðið); með vinstri hendi (eða hægri hendi þau sem voru örvhent); þau sneru þeim á hvolf og að endingu teiknuðu þau dýrin eins og þau sáu þau fyrir framan sig og horfðu bæði á dýrin og blaðið.
Næsta skref var að fara í heimsókn á Þjóðminjasafnið og skoða sýninguna Með silfurbjarta nál – spor miðalda í íslenskum myndsaumi. Þar rýndum við í útsauminn og krakkarnir völdu sér mynd til að teikna eftir, og voru beðin um að teikna eins og þau væru að sauma í blaðið.
Þá sagði ég þeim frá myndlistarmönnum sem vinna með útsaum og aðrar hannyrðir í myndlistinni sinni og við skoðuðum myndir af verkum þeirra.
Ég sagði þeim líka frá franska 19.aldar málaranum Rousseau sem málaði gjarna myndir af dýrum í villtum frumskógi sem hann bjó til úr pottablómum í stofunni sinni, og sýndi þeim myndir.
Þá var komið að útsaumsverkefni krakkanna. Þau voru beðin um að velja sér dýr til að teikna eftir og sauma út og svo áttu þau að búa til frumskóg fyrir dýrin og skapa stemningu svipaða þeirri sem er í málverkum Rousseau. Dýrin saumuðu þau með refilsaum, en skógurinn var gerður með frjálsri aðferð og mátti gjarna vera svolítið þrívíður og standa út úr myndinni.