Aðdragandi að þessu verkefni er teikniverkefnið Dýrateikning.
Byrjað er á að skoða myndir af ýmsum dýrum frá ólíkum búsvæðum og ræða einkenni þeirra. Af hverju eru ekki sömu dýr í öllum heimsálfum? Hvernig eru dýrin ólík eftir því hvort þau búa í sjó, í lofti eða á landi? Hefur veður og birta áhrif á útlit og einkenni dýra? Af hverju eru tildæmis dýr sem búa á köldum svæðum öll með stutta útlimi og lítil eyru? Getur það verið af því að ef eyrun væru stór myndu þau einfaldlega frjósa og detta af? Og hvernig hefur umhverfið áhrif á skynfærin? Hvaða skynfæri eru mikilvægust hjá dýrum sem búa í myrkri?
Dýraskúlptúr
Hver nemandi fær ferhyrndan bút af hænsnaneti. Búturinn er ílangur og búið er að klippa upp í langhliðarnar á fjórum stöðum, þá er auðveldara að móta dýrið ef það er fjórfætlingur. Þegar búið er að móta vírinn er hann þakinn með pappamassa (dagblaðaræmum sem dýft er í veggfóðurslím) og hann látinn þorna. Þá eru teknar fram gifsgrisjur, þær klipptar niður í hæfilega búta og dýrið þakið með þeim. Lögð er áhersla á að slétta vel yfir öll samskeyti og strjúka grisjunum þar til ekki sést lengur í göt. Að endingu er bætt við áhersluatriðum; augum, tönnum, tindum, göddum, klóm og munstri í skinni eða húð. Efniviðurinn hér var alls kyns fjörugull; skeljabrot, sæbarnir smásteinar og sjávarslípað gler, en getur að sjálfsögðu verið hvað sem er.