Veturinn 2011-2012 fór Myndlistaskólinn af stað með verkefni í samstarfi við Listasafn Íslands og Þjóðmenningarhúsið; Þingvallamynd Þórarins B hundraðfaldast.
Tilefnið var sýningin Þúsund ár í Þjóðmenningarhúsinu, en þar er komin varanleg sýning úr safneign Listasafns Íslands sem mun stækka með tímanum. Varanleg sýning eins og þessi býður upp á ný tækfæri fyrir skóla til að vinna verkefni út frá íslenskri myndlist, þar sem þeir geta gengið að sömu verkunum vísum í langan tíma.
Verkefnið fólst í því að valið var eitt verk á sýningunni til að vinna með, og var það mynd Þórarins B. Þorlákssonar, Þingvellir frá 1900. Nemendur komu í safnið, skoðuðu verkið og fengu leiðsögn um sýninguna. Í framhaldinu veltu þeir verkinu fyrir sér með kennara sínum í Myndlistaskólanum og unnu nýtt verk út frá málverki Þórarins. Útkoman var yfir hundrað verk af ólíkum toga. Teikningar, málverk, myndasögur, leirskálar, lágmyndir, hreyfimyndir og tréskúlptúrar, verk 148 nemenda á aldrinum 4 – 16 ára. Afraksturinn var sýndur á sýningu í Þjóðmenningarhúsinu vorið 2012. Sýningin var hluti af dagskrá Barnamenningarhátíðar það vor.
Þetta er aðeins byrjunin á samstarfsverkefni Myndlistaskólans í Reykjavík, Listasafns Íslands og Þjóðmenningarhússins. Verkefnið mun halda áfram, og er hugmyndin að á hverju hausti verði valið nýtt verk á sýningunni til að vinna með og kennurum grunnskólanna boðið að taka þátt með nemendum sínum.
Verkefni á Kveikjunni:
BLÁMI; athyglinni beint að bláu litatónunum í málverkinu og gerðar litatilraunir í vatnslit.
EFTIRMYND-BÚTAMYND; eftirmynd gerð í samvinnu hópsins. Málverkið er bútað niður og hver nemandi stækkar einn hluta.
EGGTEMPERA-ÞINGVALLAMYND; athyglinni beint að formunum í málverkinu, fjöllum og vatni, og málað með aðferðum gömlu meistaranna.
INNSETNING-ÞINGVALLAMYND; innsetning gerð í samvinnu hópsins. Eftirmynd málverksins í þrívíðu líkani úr leir.
LANDSLAG Í KASSA; búin til þrívíð mynd af málverkinu í litlum kassa, sem verður eins og sviðsmynd eða lítið leikhús.
LEIRSKÁL; þrívíð eftirmynd málverksins í formi leirskálar.
MÁLAÐ EFTIR MYND; klassískt verkefni þar sem máluð er eftirmynd af málverkinu.
SPUNNIÐ VIÐ ÞINGVALLAMYND; lítið prent af málverkinu er límt á stóra örk og nemendur spinna við myndina.
ÞINGVALLAMYND-HREYFIMYND; hvað ef málverkið lifnaði við? Nemendur lífga málverkið við í hreyfimynd.
TRÉKUBBAHESTUR; athyglinni beint að hestunum í málverkinu og búnir til tréhestar í anda Aðalheiðar Eysteinsdóttur.