Litahringur og tröllaávöxtur

Litablöndun gerð að leik og ávöxtur málaður í anda Louisu Matthíasdóttur.

Markmið

Að nemendur kynnist töfrum litanna og þjálfist í litablöndun. Að nemendur kynnist verkum listamanns (Louisu Matthíasdóttur) og spegli verk sín í verkum hans.

LÝSING

Við komum saman í hring á stóru hvítu blaði, þar sem voru jafnmargar dollur og við vorum mörg.  Í einn var gulur litur, í annarri rauður og í þeirri þriðju var blár.  Úr þessum þremur litum getum við blandað alla heimsins liti.

Saman ætluðum við að finna nokkra þeirra.  Þeir sem voru með grunnliti gáfu þeim sem voru með tóma dós.  Sá sem var með gula litinn gaf fimm skeiðar og hinn sem var á hægri hönd gaf nokkra dropa af rauðum lit, og svo var hrært, og viti menn, það birtist annar litur!  Appelsínugulur!  Svo gerist þetta koll af kolli þar til við enduðum með fallegar hring;  litahring þar sem allir regnbogans litir höfðu framkallast. 

Síðast blönduðum við grunnlitunum þremur saman og kom þá girnilega brúnn litur – og alla langaði í súkkulaði.

Louisa Matthíasdóttir var okkur innblástur í framhaldinu þegar við skoðuðum málverk af uppstillingum í bókum um hana og veltum fyrir okkur hvað málari þarf að hafa til mála málverk?  Við vorum sammála um að hann þarf að vera mjög flinkur að blanda liti. 

Við fórum svo af stað í ferð upp í málarasal til að leita að myndefni til að mála eins og á myndum Louisu.  Þá hittum við fyrir körfu fulla af ávöxtum og hver og einn fékk að velja einn ávöxt.  Síðan var haldið niður þar sem við máluðum á stórt hvítt blað stóran tröllaávöxt í fögrum litum.

Efni og áhöld

pappír, málning, litabakkar, penslar, bók, ávextir