Blámi

Unnið út frá Þingvallamynd Þórarins B Þorlákssonar. Blátónarnir í myndinni eru skoðaðir sérstaklega og líka bláu tónarnir sem við sjáum út um gluggann í skólanum. Eftir þessa skoðun eru gerðar tilraunir með litablöndun og málaðar blátóna vatnslitamyndir.

Markmið

Að nemendur kynnist verki úr íslenskri listasögu og byggi eigið verk á því.

LÝSING

Við heimsóttum sýninguna Þúsund ár í Þjóðmenningarhúsin og skoðuðum myndina Þingvellir eftir Þórarinn B Þorláksson sérlega vel.  Bláu litirnir náðu strax athygli okkar og við töldum allavega tíu bláa tóna í myndinni.   Við sáum líka gulan tón á bak við fjöllin og veltum fyrir okkur hvort myndin væri máluð þegar sólin er að setjast að kveldi eða koma upp að morgni.

Næsta skipti þegar við hittumst í Myndlistaskólanum upp úr klukkan þrjú skoðuðum við bláu tónana sem voru fyrir utan gluggann okkar og rifjuðum upp mynd Þórarins.  Út frá þessum tveimur tengslum við blátónana tókum við til hendinni og gerðum tilraunir með því að blanda smá gulu og rauðu út í bláu tónana.  Við notuðum tilraunaglös og dropateljara og fundum miklu fleiri tóna en við sáum í Þingvallamyndinni.  Við gerðum prufur úr hverjum nýjum tóni sem við uppgötvuðum.

Efni og áhöld

tilraunaglös, pípettur, dropateljarar, vatnslitapappír, tréspjöld, málningarlímband