Landnám – samfélag

Nemendur afmarka sér land og koma byggingum sínum fyrir. Þeir þurfa að koma sér saman um þéttleika byggðar, tengingar á milli húsa og skilgreina einkarými og almenningsrými.

Markmið

Að nemendur geri sér grein fyrir hvernig samfélag verður til – Að nemendur takist á við ólíkar skoðanir og leysi ágreining – Að nemendur geri sér grein fyrir mikilvægi þessa að taka tillit til nágranna sinna

LÝSING

I.  Landnám

Þetta verkefni kemur í kjölfar verkefnisins HVALIR OG KÖNGULÆR.  Þegar byggingarnar eru tilbúnar eru þær lagðar til hliðar og farið að huga að stað til að koma þeim fyrir.  Hópurinn heldur fylktu liði í annan sal sem er tómur fyrir utan að búið er að þekja gólfið með pappa.  Nemendur ganga inn í salinn í einfaldri röð og leiðast.  Kennari sýnir þeim hvaða hluta salarins þeir mega leggja undir sig (því að tveir hópar aðrir eiga líka eftir að nema hér land).  Nemendurnir á báðum endum halarófunnar ákveða upphaf og enda landsins;  það getur til dæmis byrjað í einum vegg og endað í öðrum, átt upphaf og endi í sama veggnum eða jafnvel myndað litla eyju á miðju gólfinu.  Hópurinn mótar svo útlínu landsins með því að færa sig fram og aftur þannig að halarófan hlykkjast á milli endapunktanna.   Þegar allir eru sáttir stöðva þau hreyfinguna.  Kennari tekur upp litakrít og afhendir nemanda á öðrum enda halarófunnar.  Sá teiknar strandlínu fyrir framan sig og lætur litinn svo ganga til næsta manns.  Þannig gengur þetta fyrir sig þar til liturinn er kominn út á enda og allir hafa teiknað sinn hluta strandlínunnar.

II.  Samfélag verður til

Næst eru byggingarnar sóttar og hver og einn velur sinni byggingu stað.  Hópurin þarf að koma sér saman um hvar má byggja, hversu nálægt má vera næsta manni og hvernig tengingum er háttað á milli húsanna.  Vegir, göngustígar, samgöngutæki og svo framvegis.  Og hvað gerist ef einhver vill vera alveg út af fyrir sig og ekki tengjast öðrum?  Eins þarf að huga að einkarými og almenningsrými.  Á að girða í kringum húsin?  Eru lóðirnar einkasvæði eða má hver sem er fara hér um?  Og viljum við hafa einhver svæði sem eru opin öllum?  Hvernig eiga þau að vera og hvað má gera þar? 

Allir taka til hendinni og móta landslag; fjöll og hæðir úr pappakössum, afmarka stöðuvötn og tjarnir með litlum steinum eða sandi og mála vatnið blátt, tré spretta upp tún grænka.  Efniviðurinn er öllum aðgengilegur og nemendum er látið eftir að finna út hvernig hægt er að nota hann.  Kennari hvetur áfram með opnum spurningum og hjálpar til við að leysa ágreining og nágrannaerjur sem kunna að koma upp.

Efni og áhöld

líkön af byggingum, pappír, teikniáhöld, krítar, vatnslitir, leir, trjágreinar, steinar, fundið efni, pappakassar