LÝSING

HÚS, HVALIR, KÖNGULÆR voru vikulangar Listbúðir þar sem 8 ára grunnskólanemendur komu í fylgd bekkjarkennara sinna í Myndlistaskólann.  Nemendur vörðu öllum skólatíma sínum í Myndlistaskólanum þessa viku, þar sem kennarar Myndlistaskólans tóku á móti þeim og leiddu verkefnið.  Í Listbúðum er unnið með eitt ákveðið þema alla vikuna, með aðferðum myndlistar og á forsendum hennar.  Sérfræðingur á viðkomandi sviði er fenginn til að flytja fyrirlestur en að öðru leyti eru Listbúðirnar byggðar upp á nokkrum smærri verkefnum sem saman mynda eina heild eða KEÐJU.

Viðfangsefni þessara Listbúða er byggingalist, með áherslu á byggingagerðir húsa;  annars vegar þungar og massífar, sem má líkja við hvali, og hins vegar grindarbyggingar sem eru léttar og leikandi, og má líkja við köngulær.  Arkitekt flytur fyrirlestur með mynddæmum þar sem bent er þessar ólíku gerðir húsa og hvað byggingarlag og útlit húsa hefur mikil áhrif á það hvernig okkur líður í þeim.  Nemendur læra að flokka byggingar í þessa tvo flokka;  hvali og köngulær, en komast líka að því að margar byggingar eru sambland af hvoru tveggja. 

Helstu verkefni HÚS, HVALIR, KÖNGULÆR, eru:

- HÚSATEIKNINGAR, þar sem ákveðnar byggingar eru gaumgæfðar og teiknað eftir þeim á vettvangi (hér var farið á Skólavörðuholtið og Hallgrímskirkja og Hnitbjörg, Safn Einars Jónssonar, skoðaðar).

- HVALIR OG KÖNGULÆR, þar sem nemendur gera hanna og gera líkön að byggingum sem er annað hvort hvalir eða köngulær.

- KÖNGULÓARHÚS Í FJÖRUNNI, þar sem farið er í vettvangsferð í fjöru og nemendur gera byggingar /skýli í skala við sjálfa sig, þ.e. sem þeir komast fyrir inni í.

- LANDNÁM – SAMFÉLAG, þar sem nemendur nema land og mynda litla borg eða samfélag úr byggingunum sínum. 

Í Listbúðum er mikið lagt upp úr skissubók /dagbók sem nemendur vinna í jöfnum höndum alla vikuna.  Þar eru hugleiðingar og vangaveltur um viðfangsefnið og dagskrá Listbúðanna skráðar í mynd og /eða texta, allt eftir því hvað hver nemandi kýs.  Þessi bók verður góð heimild um vinnuna og tímann í Listbúðunum.  Í lok Listbúða er foreldrum og forráðamönnum boðið á sýningu í Myndlistaskólanum að sjá afrakstur vikunnar. 

Umræður eru mikilvægur hluti Listbúða.  Inn á milli er staldrað við og það sem komið er skoðað og rætt.  Nemendur eru leiddir áfram í verkefnum með opnum spurningum, og fyrir lokasýninguna sest hópurinn niður og ræðir saman;  vikan er rifjuð upp og nemendur spurðir hvað þeir hafa lært.  Þannig eru þeir vel undirbúnir til að taka á móti sýningargestum og leiða þá um sýninguna.