Búið er að ræða ólíkar byggingargerðir húsa, massa og grind (hvali og köngulær) eins og lýst er í verkefninu Húsateikningar.
Vettvangsferð
Farið var í fjöruna við Gróttu. Þar er stór og góð sandfjara og fiskitrönur fyrir ofan fjöruna. Nemendum er skipt í tvo hópa, annar byrjar í fjörunni en hinn í fiskitrönunum. Hóparnir skiptast svo á.
Í fjörunni fá nemendur langar tágar, sem eru mjúkar og sveigjanlegar. Þær eru nógu langar til að sé myndaður bogi með því að stinga báðum endum í sandinn er hann í það minnsta jafnhár nemendum. Þeir fá líka bambusstangir (a.m.k. 1 metri) sem eru beinar og sterkar, snæri og skæri. Verkefnið hér er að búa til grindarbyggingar í skala við nemendur, þ.e. nemendur komast fyrir inni í þeim. Þeir hafa ekki annan efnivið en þennan, en mega nýta sér það sem þeir finna í fjörunni til viðbótar. Nemendur þurfa að finna út úr því hvernig byggingin getur staðið og borið sjálfa sig uppi. Nemendur vinna saman í 4-5 manna hópum.
Í fiskitrönunum er viðfangsefnið að búa til lokuð rými eða skjól með því að bæta við þann strúktúr sem fyrir er. Efnið sem þau fá eru stórir léreftsstrangar, plastfilmur og borðar, snæri, hamrar og naglar. Hér vinna þau líka í 4-5 manna hópum.