Skuggaborg

Hér er unnið með töfra ljóss og skugga. Hús og aðrar byggingar eru klipptar út úr pappa og gerðar að “skuggabrúðum”. Íbúar borgarinnar, gróður og farartæki verða til á sama hátt. Með ljósum og lituðu sellófani er búin til skuggaborg á upplýst tjald eða skerm.

Markmið

Að skilja samspil ljóss og skugga – Að kynnast áhrifamætti stærðar og skala – Að efla samvinnu

LÝSING

I.  Byggingarnar í borginni

Gott er að byrja á að skoða dæmi um verk listamanna sem leika sér með töfra ljóss og skugga.  Það þarf ekki endilega allt að tengjast byggingum og borgum. 

Þá er viðfangsefnið kynnt, sem er að búa til skuggaborg.  Hvernig borg er það nú?  Fyrst er gott að ræða aðeins hvaða byggingar við þekkjum í Reykjavík eða öðrum borgum.  Í hvernig byggingum búa börnin,- blokkum, raðhúsum eða einbýlishúsum?  Eru margar hæðir?  Margir gluggar?  Svalir?

En hvernig búum við til skuggaborg?  Kennari tekur fram efni og áhöld til húsbygginga:  karton, blýanta og skæri.  Það er ýmislegt hægt að gera með þessu.  Nauðsynlegt er að hafa líka skerm eða tjald og lampa til að lýsa með.  Þá er hægt að skoða jafnóðum hvernig skugginn verður af byggingunni.  Nemendur teikna byggingar og klippa út, en hugsa þarf fyrir því að gera ráð fyrir flipa undir byggingunni svo auðvelt sé að líma hana fasta á pappaspjald og hún geti þannig staðið sjálf.  Það er gott að hvetja nemendur til að huga vel að smáatriðum.  Eftir því sem gluggar og smágöt eru fleiri og klippingin flóknari verður skuggamyndin áhugaverðari.   En það má skreyta byggingarnar enn frekar.  Nú er bætt við efnivið:  lituðu sellófani, tannstönglum og grillpinnum.  Með þessu er hægt að fá litað ljós í glugga og ýmis smáatriði og flúr.  Byggingunum er að lokum raðað saman að baki tjaldsins / skermsins og lýst á þær og þannig teiknuð upp skuggaborg á tjaldinu.  Eftir því sem lamparnir eru fleiri er hægt að stýra skuggunum betur.  Með því að lýsa neðan frá er hægt að láta byggingarnar teygja sig upp eftir tjaldinu.  Og með því að lýsa með fleiri en einum lampa á sömu byggingar verður skugginn margfaldur. 

II.  Hvað er fleira í borginni en byggingar?

Þegar byggingarnar í borginni eru tilbúnar er tími til kominn að ræða hvað annað á að vera  í borginni.  Hvað er meira í borgum en hús?  Bílar? Tré?  Fólk?  Ljósastaurar?  Annars konar farartæki?  Og hvernig er með himininn fyrir ofan borgina, er eitthvað þar?  Flugvélar?  Þyrlur?  Fuglar?  Sól?  Tungl?  Stjörnur?  En hvernig er hægt að setja upp hluti sem svífa í loftinu?  Kennari setur upp snúru fyrir ofna húsin (hana má til dæmis strekkja á milli tveggja stóla) og sýnir hvernig hægt er að hengja hluti á hana.  Það nægir að búa til krók úr vír og festa á hlutinn.

III.  Skuggaborg verður til

Þegar hlutirnir eru  tilbúnir er öllu raðað saman í Skuggaborg.  Hægt er að varpa skuggunum á tjald eins og notast var við á meðan hlutirnir voru búnir til, en það er líka hægt að gera úr þessu stærri innsetningu.  Það er til dæmis hægt að varpa skuggunum á veggi, og þá í fleiri áttir en eina.  Það má líka leika sér með ólíka ljósgjafa;  lampa og myndvarpa.  Á myndvarpann er hægt að setja litað sellófan og fá þannig litaðan himinn á tjaldið.  Ef lýst er með lömpunum í gegnum litafiltera verður skugginn í lit.  Þá er líka hægt að setja svart karton á blindramma á myndvarpann.  Ef stungið er á kartonið birtast litlar stjörnur á tjaldinu.  Það má gera meira úr skalanum með því að stilla hlutunum og ljósgjafanum mislangt frá tjaldinu, og enn frekar með því að stíga sjálf inn í skuggann.  Það er um að gera að prófa sig áfram og gera tilraunir.  Og ekki gleyma leiknum.  Það er vel hægt að setja upp skuggaleikhús og búa til litlar sögur sem gerast í borginni.

Efni og áhöld

pappír, skæri, sellófan, lím, grillpinnar, tannstönglar, vír, gatari, síll, einangrunarplast, lampar, tjald, skermur, blindrammi