Leirskál eftir Þingvallamynd

Leirskál mótuð eftir málverki. Myndefni málverksins; fjöll, byggingar og hestar er mótað í leir og komið fyrir á og í leirskál. Tvívíður heimur verður þrívíður.

Markmið

Að nemendur kynnist verki úr íslenskri listasögu og byggi eigið verk á því. Að þjálfa mótun og þrívíða hugsun. Að búa til þrívíðan heim úr tvívíðum. Að nemendur kynnist klassískum aðferðum myndlistar eins og leirmótun og eggtemperu.

LÝSING

Börnin nálguðust verkefnið með dýramyndum þar sem sérstök áhersla var lögð á hesta.  Þjóðmenningarhúsið var heimsótt og Þingvallamynd eftir Þórarinn B Þorláksson rannsökuð og teiknuð í skissubók.  Rætt var um litina í myndinni og hvort það væri nótt eða dagur, hvar allt fólkið væri.  Var það kannski sofandi?

Börnin bjuggu til leirskálar þar sem botninn var undirlendi myndarinnar og skálarbarmarnir mynduðu fjallahringinn.  Vatnið, húsin og hestarnir voru mótuð.  Mulið blátt gler var notað til að skapa vatnsyfirborð.  Glerið bráðnaði þegar skálin var brennd í keramíkofninum.  Þegar búið var að brenna skálina var hún máluð með eggtemperu sem börnin bjuggu til sjálf.  Eggtemper er litur sem er samansettur úr litadufti, eggjarauðu og vatni.

Efni og áhöld

leir, áhöld til mótunar, gler, egg, vatn, litaduft, penslar, keramíkofn