Teiknað með límbandi

Hér er notuð aðferð miðaldateiknara við að færa mynd á annan flöt með gatateikningu.

Markmið

Að nemendur kynnist aðferðum miðaladateiknara. Að nemendur kynnist aðferðum við að stækka teikningu. Að nemendur kynnist óhefðbundunum teikniaðferðum.

LÝSING

 

TEIKNAÐ

Þú skalt byrja á að velja þér teikningu eða hluta teikningar til að teikna eftir.  Það getur verið gott að nota hjálpartæki eins og ramma skorinn út úr þykkum pappa til að velja sjónarhorn eða hluta teikningar.  Þegar þú horfir í gegnum rammann er auðveldara að einangra viðfangsefnið.  Þú getur líka þrengt og víkkað sjónarhornið með því að færa ramman nær þér og fjær – eins og þegar súmmað er í myndavél.  Þegar þú teiknar skaltu fylgja fyrirmyndinni eins vel og þú getur.  Teikningin þín á að vera línuteikning eins og fyrirmyndin.

 

GATAÐ

Þegar teikningin er tilbúin leggurðu hana á einangrunarplastplötu og gatar hana.  Það er gert með því að stinga göt með síl eða grófri stoppunál í línurnar í teikningunni.  Nú ertu komin með gataða teikningu sem hægt er að nota eins og götuðu teikningarnar í Íslensku teiknibókinni til að færa teikninguna yfir á annan flöt.

 

STÆKKAÐ

Þá er komið að því að stækka myndina upp.  Það er gert með því að leggja gatateikninguna á myndvarpa og lýsa í gegnum hana og varpa henni þannig upp á vegg.  Þá er betra að vera í dimmum sal og það þarf að gæta þess að þekja ljósaborð myndvarpans ef teikningin gerir það ekki sjálf, þannig að ljósið lýsi aðeins í gegnum götin í teikningunni.  Nú birtist teikningin á veggnum með litlum ljósapunktum og þá notarðu til að draga myndina upp aftur.  Þú getur leikið þér með stærðina á teikningunni með því að stilla myndvarpann, eða færa hann nær eða fjær veggnum.

 

Nú velurðu hvort þú ætlar að teikna beint á vegginn eða á stóra pappírsörk (ef þú ætlar að teikna á pappír, festirðu hann einfaldlega á vegginn áður en þú byrjar og varpar myndinni á hann).  Það má líka hugsa sér að teikna á hurð eða glugga. 

Stóru teikninguna á veggnum teiknarðu með límbandi.  Það getur verið venjulegt málaralímband eða marglitt rafmagnslímband.  Og nú þarftu að velja hvort þú ætlar að gera línuteikningu eða fylla formin og vinna með fleti. 

 

Þetta verkefni er líka hægt að vinna í hóp.  Þá byrjar hver á að teikna sína mynd og þær svo settar saman í eina stóra mynd á veggnum þegar stækkað er með myndvarpanum. 

Efni og áhöld

pappír, teikniáhöld, fyrirmynd til að teikna efitr (Íslenska teiknibókin), einangrunarplast, síll eða stoppunál, myndvarpi, límband (málarateip eða rafmagnaslímband).

Bókalisti