Þegar teiknað er á hvolfi plötum við heilann og komumst fram hjá rökhugsuninni. Oft þegar við teiknum erum við meira að teikna eins og við höldum að hlutirnir séu frekar en hvernig við sjáum þá. Þegar við teiknum eftir mynd á hvolfi er auðveldara að horfa fram hjá því af hverju myndin er og einbeita okkur að línunum og formunum á milli línanna.
Taktu fyrirmyndina og hafðu hana við hliðina á blaðinu sem þú ætlar að teikna á. Láttu myndina snúa á haus. Þegar þú teiknar eftir henni, reyndu að gleyma af hverju myndin er og reyndu að horfa bara á línurnar, hvernig þær liggja og formin sem myndast á milli þeirra. Þau skipta jafn miklu máli og línurnar. Best er að byrja efst í öðru hvoru horninu og lesa sig áfram niður myndina, eins og þegar við lesum texta í bók. Ekki snúa myndunum við fyrr en þú ert búinn með alla teikninguna.