Skuggatré

Skugginn kannaður með ljósi og trjágrein og fangaður með blýanti. Þetta verkefni er unnið í framhaldi af LIFANDI LITIR. Í lokin skemmta allir sér í skugga /litaleikhúsi.

Markmið

Að nemendur skilji samspil ljóss og skugga

LÝSING

Byrjað á að heimsækja myndirnar frá síðasta tíma.  Getum við lesið í þær?  Hvað getum við sagt um þær?  Eru línurnar eða litirnir glaðir?  Léttir?  Dimmir?  Bjartir?  Þreyttir?   Hoppaði pensillinn eða dansaði hann um blaðið?  Renndi hann sér ef til vill?  Hvað sjáum við með hjálp ímyndunaraflsins?  Hvað gæti þetta nú verið? 

Hver og einn talar um sína mynd, fær hjálp frá hinum jafnvel.  Við tökum myndirnar niður og setjum á vinnuborðið.

Förum í skynjunarleik, höndum stungið inn í kassa sem ekki er hægt að sjá inn í (getur verið pappakassi með tveimur götum, áfestar ermar innan á þeim).  Hvað er í kassanum?  Börnin skiptast á að koma við og segja frá.  Kassinn opnast og trjágrein kemur í ljós.  Tengjum við það sem gert var í síðasta tíma.  Var þetta stórt tré eða lítðið?  Vantar eitthvað á það?  Vex eitthvað á því?  Býr einhver í því?  Allir velja sér grein.

Hvað er það sem eltir okku allan daginn þegar sólin skín?  Einn nefnir geitung og allir hlæja.  Ljósin eru slökkt, gluggarnir eru myrkvaðir, allt er dimmt.  Þá rís sólin upp þegar ljósvarpinn reisir upp höfuðið.  Börnin skitptast á að skoða skuggann sinn og leika sér að trjágreininni.  Rifja upp skuggasönginn.  Við veltum upp ýmsum spurningum saman.  Er skugginn lifandi?  Hvernig er hann á litinn?  Er hann fastur við okkur?  En ef við hoppum, hvað þá?  Getum við hlaupið á undan honum?  Hvert fer hann?  Getum við veitt skuggann og teiknað hann?  Gerum tilraun, kveikjum ljósið, setjumst í hring á gólfið með blað á milli okkar og blýant í hendi.  Kennarinn lætur trjágreinina standa á blaðinu og við skoðum skuggann saman, allir finna einn anga af skugganum og lita inn í hann með blýantinum.

Nú snúa allir að myndinni sinni á borðinu.  Þar eru lampar.  Um leið og loftljósin eru slökkt kveikja börnin á sinni sól á borðinu.  Þau fá mjúkan leir, búa til eyju í kringum trjágreinina sína til að láta hana standa á blaðinu.  Hvar er best að koma henni fyrir?  Leitum að skugganum og veiðum hann inn á myndina okkar með því að lita inn í hann.  Eyjan verður stundum að báti sem siglir á úfnu rauðrófuhafi milli spínateyja eða eftir bláberjaskurðum frá síðasta tíma.  Stundum vaxa leirber á trjágreinina.

Við vekjum ljósvarpann aftur og setjum upp skugga/litaleikhús í lok tímans.  Helmingur barnanna sest og horfir á meðan hin hjálpast að við að setja upp sýninguna.  Plastbox er sett ofan á varpann, vatni helt smám saman ofan í boxið með skvampi og straumkasti upp á sýningarveggnum.  Vatnið kyrrist og nú sjúga börnin upp í dropateljara og láta detta niður í vatnið.  Dularfullar myndir birtast fyrir framan áhorfendurna.  Þá er tekið til við bleklitina.  Byrjað á dropum af gulu, risastórar undurfagrar slæður birtast á veggnum sem breytast í sífellu.  Nú bætast rauðir dropar við og bláir.  Regnbogalitir á stöðugu iði svífa um á veggnum, leikurinn æsist og litirnir drukkna að lokum í svargrænu litamyrkri.  Þá er skipt um leikendur og byrjað upp á nýtt.

Í lok tímans eru myndirnar hengdar upp í samráði við og með aðstoð barnanna.

Efni og áhöld

trjágreinar, pappakassi, afklipptar ermar, lampar, plastleir, blýantar, myndvarpi, skál, pípettur, dropateljarar, blek, vatn