Hlutnum sem teikna á er stillt upp á borð eða pall sem stendur upp við vegg (hér var það líkan af byggingu). Best er að festa hann með límbandi eða kennaratyggjói. Svartur pappír er festur á vegginn á bak við hlutinn. Lampi er festur á borðið eða pallinn fyrir framan hlutinn sem teikna á. Nemandi “teiknar” nú með því að lýsa á hlutinn svo það myndast skuggamynd af honum á pappírinn. Hann getur breytt myndinni með því að færa lampann til, skugginn breytist eftir því hvort lýst er neðan frá eða ofan, og eins eftir því hvað lampinn ernálægt hlutnum. Þegar nemandinn er ánægður með “teikninguna” sem skugginn myndar á blaðinu er lampinn festur í þeirri stöðu. Nú fær nemandi hvítan trélit og teiknar útlínur skuggans á blaðinu. Í fyrstu er þetta bara línuteikning en þegar búið er að teikna upp allan skuggann er blaðið tekið af veggnum og fært niður á borð. Þá er þægilegra að lita ljósið í myndinni. Þar sem ljósið skein í kringum skuggann er nú litað hvítt. Allt í kringum hlutinn og eins þar sem ljósið skein inn um glugga og göt.
Það er nokkuð vandasamt að teikna eftir skugganum og getur reynt á þolinmæðina þegar ljósið færist til og þegar höndin og tréliturinn skyggir á skuggann. Önnur leið til að gera skuggateikninguna er að sleppa því að nota lampann þegar teiknað er en teikna hlutinn upp eins og um skuggamynd væri að ræða. Þá er byrjað á að skoða skuggamynd af hlutnum með því að lýsa á hann á tjald eða skerm, og skoða vel hvar er ljós og hvar er skuggi. Nemandi stillir hlutnum svo upp fyrir framan sig og teiknar nákvæma eftirmynd af honum og litar svo með hvítu þar sem ljósið myndi lýsa í gegn og í kring.