Húsateikningar

Húsateikningar þar sem teiknað er eftir fyrirmyndum á vettvangi. Áður er búið að ræða tvær grundvallargerðir bygginga; annars vegar þungar og massífar byggingar og hins vegar grindarbyggingar sem eru léttar og leikandi. Þessum tveimur byggingargerðum má líkja við hvali og köngulær.

Markmið

Að nemandi þekki ólíkar byggingargerðir húsa (massa og grind) – Að auka eftirtekt nemanda eftir umhverfi sínu – Að nemandi læri að nota teikningu sem rannsóknar og skoðunartæki – Að nemandi þjálfist í að teikna án leiðréttingar (strokleðurs)

LÝSING

Verkefnið markaði upphaf listbúðanna HÚS, HVALIR, KÖNGULÆR, og var byrjað á að ræða heiti þeirra.  Hús, hvalir og köngulær, hvað á þetta þrennt nú sameiginlegt?  Kennari upplýsir að viðfangsefni listbúðanna séu hús og ólíkar byggingargerðir þeirra.  Það eru tvær grundvallargerðir bygginga;  annars vegar þungar og massífar byggingar sem líkja má við hvali og hins vegar grindarbyggingar sem eru léttar og leikandi og líkja má við köngulær.  Skoðaðar eru myndir af ólíkum byggingum og nemendur beðnir að flokka þær sem hvali eða köngulær.  Þeir eru líka beðnir um að nefna byggingar sem þeir þekkja og falla í annan hvorn flokkinn.  En er hægt að flokka allar byggingar sem hvali og köngulær?  Nei, við komumst að þeirri niðurstöðu að margar byggingar eru sambland af hvoru tveggja, en oft er annað meira ráðandi en hitt.

Vettvangsferð

Farið er í vettvangsferð á Skólavörðuholtið til að heimsækja og Hallgrímskirkju og Hnitbjörg, safn Einars Jónssonar.  Nemendum er skipt í þrjá hópa, einn fer í Hnitbjörg, annar inn í kirkjuna og sá þriðji skoðar kirkjuna utan frá.  Hóparnir skiptast svo á svæðum þannig að allir fara á öll svæðin þrjú. 

Við byrjum á að skoða byggingarnar vel og komumst fljótt að því að báðar eru byggingarnar hvalir, eða dæmi um massabyggingar.  Við ætlum líka að einbeita okkur að massanum í dag.  Hvað einkennir þessar byggingar?  Gefa þær okkur tilfinningu fyrir öryggi og skjóli?  Og hvernig er með hljóðið?  Endurkastast það auðveldlega og bergmálast?  Við tökum líka eftir birtunni sem berst inn um gluggana þegar við erum inni og hvaða áhrif hún hefur á upplifunina á rýminu.  Þegar við erum fyrir utan Hallgrímskirkju skoðum við bygginguna vel áður en farið er að teikna.  Við byrjum á að standa þétt upp við bygginguna við aðalinnganginn og horfum upp eftir turninum.  Þegar við stöndum svona undir honum upplifum við hæðina miklu sterkar en þegar við horfum á kirkjuna í meiri fjarlægð.  Við tökum líka eftir sérstöku formunum í hliðarvængjunum, á hvað minnir þetta okkur?  Hafið þið séð stuðlaberg?  Við göngum heilan hring í kringum kirkjuna og tökum vel eftir öllu á leiðinni, forminu á gluggunum, hvað þeir eru margir og stórir, og kúplinum á kórnum, sumum finnst hann eins og konubrjóst.  Þegar þessari rannsókn er lokið tökum við fram teiknispjöldin og pennana.  Kennari talar um hvernig er að teikna með penna, - það er t.d. ekki hægt að stroka út eins og þegar teiknað er með blýanti, en þá þarf maður bara að vera áræðinn og ákveðinn í því sem maður er að gera.  Línan er kannski ekki alltaf alveg eins og maður ætlaði en það gerir ekkert til, teikningin verður bara meira lifandi.  Hann talar líka um línuna og hvað hún skiptir miklu máli í teikningunni.  Hann biður nemendur um að halda línunni heilli og reyna forðast að slíta hana of mikið og hjakka í henni.  Nemendur velja sér viðfangsefni og halda áfram rannsókn sinni á byggingunum í gegnum teikningu.  Sumir velja að teikna alla bygginguna en aðrir einbeita sér að smáatriðum.