Að teikna með boltum?

Óhefðbundin teikning í anda Richard Long.

Markmið

Að nemendur geri sér grein fyrir að teikning getur verið annað en lína á blaði. Að nemendur kynnist verkum samtímalistamanns (Richard Long) og spegli verk sín í verkum hans.

LÝSING

Verkefnið er unnið út frá göngulistamanninum Ríkharði Langa (Richard Long).  Við leituðum að teikningum í ljósmyndabók um listamanninn og heyrðum sögu um hann.  Við fundum myndir af sporum í snjó, far eftir steina sem höfðu oltið niður brekku, hring eftir fótspor barna og teikningu á vegg eftir vatnsgusur.  Ríkharður lítur á þetta sem teikningu. 

Við sóttum stóra grá steina og lékum okkur að teikna með vatni á þurra steinana með dropateljurum.  Við gerðum alls konar línur með vatninu og það endaði með því að steinninn okkar var orðinn svartur af bleytunni.

Eftir þetta komum við okkur fyrir í kringum risastóra pappírsörk sem var römmuð inn með tréramma á gólfinu.  Kennarinn spurði hvort hægt væri að teikna með bolta?  Hópurinn var frekar jákvæður á það, sérstaklega í ljósi þess hvað Ríkharður kallar teikningu.

Nú fengum við nokkra liti af bleki, eins konar bað fyrir boltana og teiknuðum með því að rúlla boltunum á milli okkar, eftir að hafa baðað þá upp úr blekinu.  Það mynduðust skemmtilegar stjörnur á pappírnum.  Þetta var mikið fjör.  Endapunkturinn var að vð notuðum aftur dropateljarana og létum vatnsdropana leika um blaðið og það mynduðust litasprengjur í öllum regnbogans litum á blaðinu.

Efni og áhöld

steinar, dropateljarar, vatn, pappír, fílterspappír fyrir rannsóknarstofur, litað blek, skálar, tennisboltar, límband, trérammi

Innblástur

Bókalisti