Nemendur nálguðust verkefnið með dýramyndum þar sem sérstök áhersla var lögð á hesta. Þjóðmenningarhúsið var heimsótt og Þingvallamynd eftir Þórarinn B Þorlálksson rannsökuð og teiknuð í skissubók. Rætt var um litina í myndinni og hvort það væri nótt eða dagur, hvar allt fólkið væri, var það kannski sofandi?
Verkefnið er að búa til þrívíða mynd af málverkinu. Myndin er samsett úr þremur myndflötum; undirlendi, fjallahring og himni. Þegar myndfletirnir eru settir saman, mynda þeir kassa sem er opinn á einni hliðinni og þar er horft inn í myndina. Þingvallamyndin (málverkið) er nákvæmlega litgreind og mikil áhersla lögð á litablöndun með akrýllitum. Næturstemningin í fyrirmyndinni er aðal glíman. Hús og hestar eru mótuð úr leir og brennd í keramíkofni, og líka máluð með akrýllitum.