Lifandi litir

Málað með lifandi litum. Það er hægt að mála með öðru en málningu sem keypt er út í búð. Hér er tínt til það sem finnst í ísskápnum og málað með aðferðum gömlu meistaranna sem bjuggu til liti með því að blanda saman eggi og litadufti.

Markmið

Að nemendur kynnst aðferðum gömlu meistaranna sem bjuggu til liti með því að blanda saman eggi og litadufti (eggtempera), að nemendur geri sér grein fyrir því að hægt er að mála með ýmsu öðru en málningu sem keypt er út í búð, að nemendur skynji og upplifi töfra efnisins og litanna.

LÝSING

Nemendur skrýðast málaraskikkjum og setjast með kennaranum í hring á gólfið. Hér ætlum við að æfa okkur að horfa, skoða, hugsa, lita, leika, gera tilraunir og prufa eitthvað nýtt.

Lifandi litir, hvað er nú það?  Dettur ykkur eitthvað í hug?  Spjall fylgir um liti, málningu, búðir, gamla daga, ömmu og afa, engar búðir og að gera litina sjálf.

Við förum saman í leiðangur um skólann að finna öðruvísi liti.  Aðföng úr ísskápnum og búrskápnum sett á gólfið inn í hringinn okkar.  Þau voru eftir efnum og ástæðum: egg, matarolía, sultur af ýmsum gerðum, íssósur, sojasósa, frosin eða fersk ber (bláber, sólber, rifsber, krækiber o.fl.), rauðrófusafi, stundum spínat eða hveitigras, turmeric, paprikuduft, tandorikarrý, kakó, jafnvel suðusúkkulaði.

En á hvað málum við?  Allir fá sér sæti við langborðið og fá blað.  Við förum í skynjunarleik, lokum augunum og strjúkum blaðið, hvað finna puttarnir?  Hvernig er að koma við það?  Hlustum á blaðið, getum við spilað á það?  Horfum á það, hvað sjáum við? Börnin fá stækkunargler, Það geta opnast ævintýraheimar út frá minnstu smáatriðum.

Með hverju málum við?  Í Myndlistaskólanum eru margar tegundir af penslum, við skoðum nokkra með mismunandi hári og mismunandi breiða, komum við þá, einn er með mjúkt en úfið úlfaldahár, annar með stingandi svínshár, stutt og flöt, þriðji er með löng og silkimjúk marðarhár.  Hvernig ætli þeir máli þessir penslar?  Kennarinn býður öllum pensla sem hann heldur að séu búnir til úr hárum úr halanum hennar Búkollu.

Nú eru eggin brotin.  Börnin vinna tvö og tvö saman á gólfinu eftir leiðbeiningum.  Annað heldur við skál á meðan hitt brýtur eggið.  Allir fylgjast spenntir með hvernig til tekst hjá hinum.  Þau hjálpast að með skálarnar að borðinu.  Penslarnir kanna nú innihaldið, baða sig í egginu og veltast um rannsakandi.  Og mála.  Kryddið er sótt.  Hvert fyrir sig velja börnin krydd til að blanda nýjan lit.  Þau fá kúskeljar eins og notaðar voru til litablöndunar í gamla daga, kryddið sett í, þau flytja eggjablönduna úr skálinni með penslinum og blanda í eftir þörfum.  Kennarinn gengur á milli og aðstoðar.  Vatn er við hendina til að þynna ef þarf.  Málað af krafti, nýtt krydd prófað.  Skrýtin lykt.

Svo koll af kolli tökum við það sem eftir er.  Berin lögð á blaðið, sprengd með putta, dregin til með pensli.  Rauðrófusafinn smakkaður, bleikar tungur og bláar, teiknað með súkkulaði, blaðið sleikt, málað í gegn og brúnir puttar.

Mikilvægt að nýta hvert tækifæri sem gefst til undrunar og andaktar yfir smávægilegustu blæbrigðum í lit, formum, áferð og aðferðum.  Í lokin hjálpast allir við að ganga frá.  Skeljarnar stinga sér ofan í gagnsætt vatnsker öllum til mikillar skemmtunar.  Hvernig á myndin að snúa?

Stikkorð

Efni og áhöld

pappír, egg, matarolía, krydd, karrý, turmeric, paprika, sósur, íssósa, sojasósa, sulta, spínat, rauðrófusafi, súkkulaði, ber, penslar, skeljar