Borg verður til

Hreyfimynd unnin í skuggaleikhúsi. Stórt tjald eða skermur er myndflöturinn, myndavélinni og tölvunni er stillt upp öðrum megin en hinum megin er byggingum raðað saman í borg og íbúar og farartæki hreyfð til að fá líf í borgina.

Markmið

Að kynnast töfrum hreyfimyndagerðar (stop motion) – Að kynnast áhrifamætti stærðar og skala – Að vinna í hóp

LÝSING

Verkefnið er að búa til einfalda hreyfimynd sem er gerð í samvinnu hópsins.  Hér voru notaðir byggingar og hlutir sem lýst er í verkefninu SKUGGABORG.

Fyrst er að stilla upp fyrir tökuna.  Strengt er upp stórt tjald.  Öðrum megin við tjaldið er pallur sem byggingunum er raðað á og snúra (eða snúrur)þar fyrir ofan þar sem hægt er að hengja upp hluti sem eiga að vera fyrir ofan borgina.  Hér eru líka lampar og/eða myndvarpi.  Hinum megin við tjaldið er stillt upp borði með tölvu og vefmyndavél.  Myndavélin er stillt þannig að tjaldið passi í ramma myndavélarinnar.

Áður en hafist er handa við að taka myndina þarf að kynna nemendum hreyfimyndaforritið, sem á að nota, og hvernig það virkar.  Hvernig röð ljósmynda myndar hreyfingu þegar forritið í tölvunni spilar þær saman.  Best er að leyfa nemendum að gera tilraunir áður en farið er í taka sjálfa myndina.

I.  Borg verður til

Nemendur setjast á gólfið fyrir framan tjaldið (þeim megin sem myndavélin er).  Þeir skiptast svo á að fara hinum megin við tjaldið og stilla upp byggingum og öðrum hlutum í borgina og stýra mynatökunni í tölvunni.  Myndatakan fer þannig fram að nemendur koma hver á eftir öðrum og stilla byggingunni sinni á pallinn og kveikja á lampa sem lýsir á hana þannig að komi skuggamynd á tjaldið.  Þá er tekin mynd, næsti stillir upp sinni byggingu og lýsir upp, mynd tekin og þannig koll af kolli þangað til allar byggingarnar eru komnar í borgina.  Þegar myndirnar eru spilaðar saman í heyfimyndaforritinu birtast byggingrnar ein af annari þangað til borgin er orðin til.  Í myndatökunni er hægt að leika sér með lýsinguna, breyta henni jafnóðum og fá þannig meiri hreyfingu í myndina.  Það er hægt að lýsa upp allt tjaldið með myndvarpa (hvítu ljósi eða lituðu) eða nota litla lampa og setja “spott” á byggingarnar.  Hægt er að nota litafiltera á lampana og fá skugga í lit á tjaldið.  Og það er hægt að búa til stjörnuhiminn með því að strengja svart karton á blindramma og setja á myndvarpa og stinga á það lítil göt. 

II. Hreyfing í borg

Þegar borgin hefur verið reist er hægt að halda áfram og bæta við öllum hinum hlutunum og hengja á snúrurnar fyrir ofan.  Þá er líka hægt að leika sér meira með hreyfingu í borginni.  Láta fugla og farartæki fljúga um loftin blá, sólina koma upp og ganga til viðar og stjörnubjartan himininn taka við....  Það er líka hægt að stíga sjálfur inn í skuggann og leika risa sem kitlar lítinn fugl eða leikur sér að því að færa til byggingarnar i borginni.  Möguleikarnir eru endalausir og um að gera að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn.

Efni og áhöld

tölva, stop motion forrit, vefmyndavél, tjald, lampar, byggingar, glær plastbox, krukkur, snúra, myndvarpi, karton, blindrammi, prjónn, oddhvast áhald