Þórarinn B – hreyfimynd

Nemendur skoða málverk Þórarins B Þorlákssonar, Nótt á Þingvöllum. Hvað gerist ef myndin lifnar við? Nemendur ímynda sér mögulegar sögur og gera hreyfimynd.

Markmið

Að nemendur kynnist verki úr íslenskri listasögu og byggi eigið verk á því. Að nemendur kynnist margþættum verkþáttum í gerð einnar hreyfimyndar. Að þjálfa samvinnu.

LÝSING

Farið var á sýninguna Þúsund ár í Þjóðmenningarhúsinu til að skoða málverk Þórarins B Þorlákssonar Nótt á Þingvöllum.  Á safninu spurði kennari hvað mundi gerast ef málverkið hans Þórarins gæti lifnað við?  Krakkarnir áttu ekki erfitt með að ímynda sér það.  Hestarnir mundu bíta gras, hneggja og kannski labba út úr myndinni.  Kannski mundi fólkið á bænum vakna og tveir krakkar koma hlaupandi út og fara í boltaleik.  Kannski mundu fleiri hestar koma inn á sögusviðið.  Já og þá geta allir búið til sinn eigin hest.  Og svo geta fuglar flogið yfir.  Það verður kannski svolítið erfitt en við skulum prófa.  En myndin er líka svolítið draugaleg.  Kannski kemur draugur á bát á vatninu, já og veiðir fisk!  En skrímsli?  Býr skrímsli í vatninu?

Við ræddum þetta lengi Hvernig býr maður til sögu í myndum?  Ákveðið var að gera leikmynd sem svipar til málverksins.  Til þess voru notaðir vatnslitir og ýmist pappír eða trékubbar.  Efnið var svo mótað eftir línum í málverkinu;  fjöll, hóll, þúfur og vatn.  Það gat tekið langan tíma að finna réttu litina en allir æfðu sig að blanda og máta og blanda meira og mála. 

Svo fékk hver og einn sitt sérstaka verkefni:  að móta persónu (hest, barn, draug) eða leikmun (bát, bolta, hús).  Kennari hjálpaði við samsetningu leiksviðsins og svo komu tveir og tveir í einu í upptökur þar sem aðeins mátti hreyfa persónu eða leikmun pínkulítið í senn.  Þegar margar ljósmyndir eru settar saman verður til bíómynd.  Þegar kennari var búinn að festa allar myndirnar saman í tölvunni eyddum við einum tíma í að hljóðsetja myndirnar með eigin röddum.  Við hermdum eftir hestum að hneggja og smjatta;  fuglum að kvaka;  draugi að sigla.  Samt er svo mikil kyrrð í myndinni svo við vildum ekki ofgera.  Og úr varð bíómynd!

Efni og áhöld

pappír, trébútar, skæri, vatnslitur, penslar, lím, myndavél, vefmyndavél, tölva, stop motion forrit, mynd af málverki