Markmið

Að nemendur kynnist verki úr íslenskri listasögu og byggi eigið verk á því. Að nemendur geri sér grein fyrir myndbyggingu og dýpt í málverki. Að þjálfa litablöndun.

LÝSING

Við heimsóttum sýninguna Þúsund ár í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu.  Við skðuðum Þingvallamynd Þórarins B sérstaklega vel.  Við veltum fyrir okkur litunum og birtunni sem er mjög sérstök í myndinni.  Hvenær sólarhringsins ætli myndin hafi verið máluð?   Það er mikil kyrrð í myndinni.  Gæti verið nótt?  Hafið þið vakað íslenska sumarnótt? 

Kennari beindi líka athyglinni að myndbyggingunni í málverkinu.  Það er mikil dýpt í myndinni.  Vita allir hvað bakgrunnur, forgrunnur og miðgrunnur er?  Hvar eru fjöllin?  En hestarnir og byggingarnar?

Í Myndlistaskólanum fá allir lítið prent af málverkinu og strigapappír sem límdur er á tréspjöld.  Verkefnið er klassískt;  að mála eftirmynd af málverkinu.  Fyrst er myndin teiknuð með blýanti og er lögð áhersla á að fylgja fyrirmyndinni og ná sem réttustum hlutföllum.  Þá er myndin máluð með akrýllitum, en fyrst ræðum við litablöndun og pensilskrift og nemendur prófa sig áfram.  Nemendur vinna standandi við trönur þegar þeir mála myndina. 

Efni og áhöld

mynd af málverki, strigapappír, blýantar, akrýlmálning, penslar, vatnskrukkur, tréspjöld, málaralímband, trönur